Vöfflur að hætti Jennifer

Girnilegar eru þær.
Girnilegar eru þær. Ljósmyndari/Jennifer Berg

Alþjóðlegi vöffludagurinn er í dag og því ekki úr vegi að birta uppskrift eftir Jennifer Berg sem er flinkari en flestir í matargerð. Hún segir að leyndarmálið að baki brakandi stökkum vöfflum sé að hafa hráefnið kalt. Hún segist líka nota sódavatn í stað venjulegs vatns sem hún setur í rétt áður en hún bakar vöfflurnar.

Jennifer stingur jafnframt upp á því að þið bragðbætið vöfflurnar eftir smekk og stingur hún upp á kókosflögum, súkkulaðibitum, rifnum hnetum eða kanil.

Meðfylgjandi er jafnframt uppskrift að bláberjasósu sem hún segir að sé mjög auðveld en dásamlega bragðgóð. Jafnframt sé léttþeyttur rjómi nauðsynlegur og svo er bara að njóta Alþjóðlega vöffludagsins.

Fyrir þá sem vilja lesa meira af snilldaruppskriftum Jennifer er hægt að fylgjast með henni inni á Trendnet og á Jen´s Delicious Life.

Það er ekki annað hægt en að fá vatn í …
Það er ekki annað hægt en að fá vatn í munninn. Ljósmyndari/Jennifer Berg

Vöfflur

  • 125 gr. smjör, bráðið og kælt
  • 2 dl köld mjólk
  • 4 dl hveiti
  • 2 köld egg
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 3 dl kalt sódavatn

Bláberjasósa

  • 3 dl fersk eða frosin bláber (ef þið notið frosin skal þíða þau)
  • 3 msk. sítrónusafi
  • 3-4 msk. létt sýróp
  • ½ msk. maizena-mjöl

Aðferð

Bláberjasósa

  1. Setjið bláberin, sítrónusafann og sírópið í pott og látið suðuna koma upp.
  2. Blandið maizena-mjölinu og vatninu saman og pískið vel. Hellið rólega saman við berjablönduna og pískið vel.
  3. Kveikið aftur undir pottinum og sjóðið í tvær mínútur eða þar til sósan er orðin þykk. Hrærið stöðugt í.
  4. Berið fram með vöfflunum.

Vöfflur

  1. Pískið saman mjólk, hveiti og egg.
  2. Bætið við lyfitdufti, smjöri og sódavatni.
  3. Hitið vöfflujárnið, smyrjið með smá smjöri og bakið hverja vöfflu fyrir sig þar til hún er orðin gullinbrún.
  4. Berið fram með blábejasósunni og léttþeyttum rjóma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert