Ég kom við á heilsustaðnum Happ um daginn og greip með mér kaldan hafragraut úr kælinum til að borða í morgunmat. Það er ekki í frásögu færandi nema að því leyti að grauturinn var algjörlega dásamlegur. Saðsamur, trefjaríkur, örlítið sætur, með vott af hnetukeim og safaríkum eplabitum og kanil. Algjör bomba fyrir þreytta konu með tóman maga. Ég heyrði í Lukku sem sendi mér leiðbeiningar og nú hef ég fullkomnað mína eigin útgáfu af grautnum góða.
Það þarf ekkert að ræða um gildi hafragrautar sem morgunverðar, það er vitað mál að hann stendur með manni fram undir hádegi og kemur í veg fyrir að hungrið blossi upp klukkutíma eftir morgunverð. Eins og við greindum nýlega frá sýndi áhugaverð könnun blaðakonunnar Leah Wynalek að hafragrautur er líklega með betri morgunverðarmöguleikum. Leah ákvað að kanna hvaða áhrif dagleg neysla hafragrautar hefði á hana og að mánuði loknum dró hún niðurstöðurnar saman í mjög áhugaverðan lista.
Svellkaldur og stórgóður hafragrautur
1,5 dl hafrar
3 dl mjólk – ég nota sykurlausa hrís- og möndlumjólk sem er náttúrulega sæt
1/2 lítið lífrænt sætt epli, skorið í teninga
1/2 tsk. kanill
Salt á hnífsoddi
2-3 dropar vanillustevía eða önnur sæta. Mætti jafnvel nota eplamús eða bara sleppa sætunni.
4-5 valhnetur, möndlur eða pekanhnetur, saxaðar gróft
1 tsk. hörfræ
Nokkrar rúsínur ef vill
Setjið allt gúmmelaðið í krukku, hristið og geymið í kæli yfir nótt. Stundum geri ég graut fyrir 2 daga í einu. Eplin halda sér merkilega vel.