Kjötzza með ferskum mozzarella og basil

Ítalía ákallar mig í hverjum bita af þessari gleði.
Ítalía ákallar mig í hverjum bita af þessari gleði. mbl.is/Tobba Marinós

Ég elska ítalskan mat en eins og margir mætti ég alveg minnka við mig kolvetnin. Því fékk ég fiðring í magann þegar ég rakst á uppskrift frá þokkagyðjunni Nigellu af brauðlausri pizzu sem hún kallar kjötzzu.

Ég breytti uppskriftinni örlítið eftir eigin smekk og útkoman var æðislega þykk og djúsí kjötbaka sem öskrar Ítalía og kallar á gott rauðvín. Meira að segja tveggja ára dóttir mín borðaði vel af matnum án þess að ákalla skyr í öðrum hverjum bita.

Gott er að hafa ferskan parmesan á kantinum, hvítlauksolíu og salat.

Botninn fyrir bakstur.
Botninn fyrir bakstur. mbl.is/Tobba Marinós

Botninn:

500 g gott nautahakk
3 msk. rifinn parmesanostur
3 msk. brauðmylsna eða gróft haframjöl (ég nota súrdeigsbrauðmylsnu)
3 msk. söxuð basilíka
1 msk. ítalskt krydd
2 egg léttþeytt
½ hvítlaukur pressaður
Salt og pipar eftir smekk
Olía til að smyrja formið

Álegg:

400 g dós af niðursoðnum tómötum (með hvítlauk og basil)
1 lítil dós tómatpúrra
2 hvítlauksrif, pressuð
1 tsk. pizzakrydd ,t.d. frá Pottagöldrum
1 mozzarellakúla (125 g)
1 bolli rifinn ostur
Nokkur basilíkulauf
Furuhnetur

Meðlæti:

Hvítlauksolía
Konfekttómatar
Klettasalat
Parmesan
Sítróna

Leiðbeiningar

1. Blandið með höndunum saman í skál hakki, parmesanosti, brauðmylsnu eða höfrum, basilíku, ítalska kryddinu og eggjum.

2. Rífið út í eða fínsaxið hvítlauk og saltið og piprið.

3. Blandið saman en varist að ofhræra svo kjötið fái ekki þunga og klessta áferð.

4. Smyrjið grunnt kringlótt bökunarform, um 28 cm í þvermál, og skellið kjötinu í það.

5. Þrýstið blöndunni létt niður með fingrunum svo hún þeki botninn eins og pizzubotn.

6. Gætið þess að hella eins miklu af vökvanum og hægt er úr dósinni með niðurskornu tómötunum. Blandið svo pizzakryddi, tómatpúrrunni, hvítlauk, salti og pipar saman við og smyrjið maukinu létt yfir kjötgrunninn.

7. Dreifið rifnum osti yfir, raðið mozzarellasneiðum ofan á og setjið í 220°C heitan ofn í 20-25 mínútur en þá ætti kjötið að verða gegnsteikt og stíft og mozzarellaosturinn bráðnaður. Athugið að stundum kemur dálítið vatn ofan á bökuna sem kemur úr tómötunum og kjötinu. Þá kippi ég elskunni út og þerra vatnið með pappír og set hana aftur inn. Það er líka gott að setja 2 msk. af furuhnetum ofan bökuna eftir þurrkinn og leyfa henni svo að klára að bakast.

8. Takið kjötzzuna úr ofninum og látið hana bíða í 5 mínútur.

9. Skreytið með basilíkulaufum og ferskum tómötum.

Mér finnst stórkostlegt að hafa ferskt klettasalat og tómata með og raspa örlítið af parmesanosti og sítrónuberki yfir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert