Líklega flottasta fermingarveisla í heimi

Fermingarbarnið var alsælt eftir daginn.
Fermingarbarnið var alsælt eftir daginn. mbl.is/gotter.is

Berglind Hreiðarsdóttir bloggari á Gotteri.is hélt glæsilegustu fermingarveislu sem sögur fara af.

Hér deilir hún með okkur ráðum fyrir þá sem hyggja á veisluhald, hér neðst má einnig finna frábæran tékklista fyrir fermingarveislur. Við gefum Berglindi orðið.

„Ég ákvað að taka saman lista, bæði yfir veitingar og aðra þætti og deila með ykkur í þeirri von að geta aðstoðað aðra sem standa í sömu sporum. Hér fyrir neðan er því að finna ýmsar upplýsingar ásamt aragrúa af myndum úr veislunni.

mbl.is/gotterí

Veitingar – hugmyndir og magn

Það yrði líklega mín versta martröð ef veitingar myndu klárast í veislu hjá mér, játa mig klárlega seka um að hafa alltaf veitingar fyrir allt hverfið og er þetta auðvitað ekkert nema sóun, bæði á mat og fjármunum. 

Við áttum von á 85 gestum (63 fullorðnum og 22 börnum) og buðum upp á ýmsa smárétti, kökur í eftirrétt og vorum með nammibar. Ég tók saman það magn sem var pantað/útbúið og skráði svo hjá mér hvað stóð eftir til að geta gefið öðrum raunhæfa áætlun. Magn fer eflaust mikið eftir því hversu góðar veitingarnar eru, hversu svangir gestirnir eru og vorum við skólafélagarnir að grínast með að setja upp áætlun með svengdarstuðli fyrir hvern gest til að ná að áætla þetta með minni óvissu, já svona fer verkefnastjórnunarnámið með mann.

Ég ætla nú hins vegar bara að setja hér inn það magn sem hefði dugað að panta (og smá afgangur orðið eftir) miðað við þá rétti sem í boði voru á þessu heimili. Hver rétturinn á fætur öðrum var betri og fór mjög jafnt af öllu. Auðvitað væri hægt að hafa færri tegundir en þá þyrfti að auka aðeins við magnið á hverjum rétti.

Magn af veitingum fyrir 85 gesti

Smáréttir

  • Kokteilsnittur (Canapé) – 200 stk
  • Mini-pítur – 100 stk
  • Mini-hamborgarar – 100 stk
  • Litlar hakkbollur – 100 stk
  • Kjúklingaspjót – 100 stk
  • Djúpsteiktar risarækjur – 150 stk
  • Ávaxtapinnar – 60 stk
  • Rækjukokteill – 70 stk
  • Beikonvafðar döðlur – 100 stk
  • Ostapinnar – 70 stk
  • Skinkuhorn – 100 stk

Meðaltal af smáréttum á gest = 13 bitar

Dásamlega fallegar og góðar kokteilsnittur frá Smurbrauðsstofu Sylvíu.

mbl.is/gotteri.is/

Mini-pítur frá Pítunni slógu heldur betur í gegn hjá ungum sem öldnum.

mbll.is/gotter.is

Mini-hamborgarar frá American Style, við völdum bernaise- og beikonborgara í bland. Það var umtalað í veislunni og eftir hana hvað þeir hefðu verið djúsí og góðir þar sem smáborgarar vilja oft verða örlítið þurrir, þessir voru hins vegar langt frá því!

mbl.is/gotter.is

Litlar hakkbollur frá Stórkaupum, eldaðar í hoi sin-sósu og sesamfræjum stráð yfir í lokin (eldaðar kvöldinu áður og bornar fram kaldar í veislunni).

mbl.is/gotter.is

Kjúklingaspjót frá Stórkaupum (elduð að morgni og borin fram köld í veislunni síðdegis).

mbl.is/gotter.is

Butterfly-rækjur frá Stórkaupum (djúpsteiktar í olíu að morgni og bornar fram kaldar síðdegis með sweet chili-sósu), slógu algjörlega í gegn! Heimagerðir smáréttir

mbl.is/gotter.is

Heimatilbúnir smáréttir sem vinir og ættingjar aðstoðuðu við að gera:

Ostapinnar (keypti skorna bita í Ostabúðinni og svo voru settar ólífur, vínber eða salami á pinnana og þeim stungið í hálfa litla melónu. Þetta var bæði fallegt og bragðgott borðskraut, p.s. allir skrautpinnar pantaðir á Ali Express).

Rækjukokteill í litlum skálum (soðin rækja, ferskt mangó í litlum teningum, vel saxaður rauðlaukur (marineraður í limesafa í 30 mín.), pinapple curry chutney-sósa og ruccola).

Beikonvafðar döðlur (ferskar steinhreinsaðar döðlur og um 2 snúningar af beikoni, útbúið kvöldinu áður og hitað að morgni, borið fram kalt síðdegis).

Ávaxtaspjót (melóna, ananas, jarðarber, bláber, vínber eða hvað sem ykkur dettur í hug, keypti spjótin í Tiger og þetta var gert að morgni, geymt í kæli þar til síðdegis. Mikið gott að hafa smá ferskt í bland við allt hitt).

Skinkuhorn (1,5 uppskrift af þessum hér, bestu horn í heimi og hvert einasta kláraðist).

Skiltið, boxin og dúlleríið pantaði Berglind á Ali Express.
Skiltið, boxin og dúlleríið pantaði Berglind á Ali Express. mbl.is/gotter.is



Kökur/sætir bitar

Makkarónur – 50 stk
Vanillubollur – 60 stk
Bollakökur – 20 stk
Kökupinnar – 100 stk
Kransakökubitar – 35 stk
Kransakaka – 12 hringir hefðu dugað
Fermingarterta – 6“ og 12“ hefðu dugað (öll 10“ var umfram)
Rice Krispies-kransakaka – 13 hringir hefðu dugað
Meðaltal af sætum bitum á gest fyrir utan fermingartertu, kransaköku og Rice kransaköku= 3 bitar

Ég myndi þó ekki mæla með því að hafa kökurnar neitt minni en uppskriftirnar segja til um viljið þið halda tignarlegu og fallegu útliti þeirra. Það er líka svo gott að eiga smá afgang dagana á eftir.

Vinir og vandamenn aðstoðuðu við þessar veitingar.
Vinir og vandamenn aðstoðuðu við þessar veitingar. mbl.is/gotter.is
Berglind bakaði sjálf bollakökurnar og pinnana.
Berglind bakaði sjálf bollakökurnar og pinnana. mbl.is/gotter.is


Makkarónurnar hafði ég ekki tíma til að baka og keypti tilbúnar frosnar í Stórkaupum. Mikið sem þær komu á óvart, voru hver annarri bragðbetri og ekki skemmdi þetta fullkomna útlit heldur fyrir, kláruðust upp til agna.

Vanillubollurnar keypti ég einnig í Stórkaupum, þær voru ódýr kostur og virkilega góðar (stráðum smá flórsykri yfir áður en þær voru bornar fram).

Bollakökur og kökupinna útbjó ég sjálf og skreytti í stíl við kökuborðið. Ég gerði súkkulaðibollakökur með vanillusmjörkremi og vanillukökupinna með bleikum og hvítum súkkulaðihjúp sem ég keypti í Allt í köku, sykurmassablómin útbjó ég sjálf og litaði með gylltu og bleiku matarlitardufti og sykurperlum. Þið getið fundið ýmsar uppskriftir að bæði bollakökum og kökupinnum undir „Uppskriftir“ hér á síðunni.

Kransaköku sem og kransakökubita bjó ég einnig til í stíl við litaþemað og hægt er að finna uppskrift að hvoru tveggja hér á síðunni.

Fermingartertuna bakaði ég einnig sjálf og var daman snemma ákveðin í því að bjóða upp á „Naked cake“ enda virðist slíkt vera í tísku í dag. Uppskriftina finnið þið hér, orkídeurnar fékk ég í Hlín blómahús í Mosfellsbæ, gullblöðin á Ali Express og skrautskiltið hjá Hlutprent, allar nánari upplýsingar er að finna undir uppskriftinni sjálfri.

Rice Krispies-kransakökuna gerði ég líka. Ég geri alltaf töluvert meiri blöndu en flestir sem ég sé að útbúa þessa köku en það sem mér þykir gaman að hafa hana svona háa og tignarlega. Burðarþolið virðist einnig verða betra með þykkari og þjappaðri hringjum svo ég mæli með þið prófið þessa útgáfu.

mbl.is/gotter.is

Nammibar

Hérna vorum við í raun með allt of mikið í hverri sort og um 2/3 voru enn afgangs í hverri nammikrús en fylla þurfti reglulega á poppið. Okkur fannst bara ekki fallegt að stilla þessu upp nema með fullum skálum svo hér verður til nóg af nammi fram yfir páska. Það fóru hins vegar um 4 pokar af hvorri tegund af poppinu (Maxi-popp venjulegt og Maxi-popp með karamellu).

Við reyndum að hafa litina af namminu í stíl við fermingarþemað sem var gyllt, hvítt og bleikt en þar sem kökur voru brúnleitar að hluta fékk brúnt nammi einnig inngöngu á barinn :) Nammibox, nammipokar, Candy Bar-skiltið og nammiskeiðar var allt pantað á Ali Express.

mbl.is/gotter.is

Kúlusúkk og snjóbolta keypti ég hjá Kólus sælgætisgerð og koma þessar krúsir úr IKEA, borðar og merkimiðar frá Sösterne Grene.

Við vorum bæði með venjulegt Maxi-popp og síðan Maxi-popp með karamellu og þessar tvær skálar þurfti að fylla reglulega á. Skálarnar fékk ég að láni en ég hef séð svipaðar í Hagkaup.

Bleikt Smarties keyptum við í Big Box eftir að hafa séð umræðu um þá verslun á fermingarvefnum.

Frænka mín keypti gull Hershey’s kisses í Boston fyrir mig og voru þeir bæði með möndlum sem og hreinu mjólkursúkkulaði. Ég var þá búin að panta sérmerkta límmiða á botninn á þeim hjá Label Creations og voru þeir bæði ódýrir og fljótir að berast inn um lúguna (tók ca. viku frá því ég pantaði). Skál keypt í USA og fengin að láni hjá vinkonu.

Á nammibarnum var svo ein skál með jarðarberjakaramellum sem ég keypti á nammibar Krónunnar og önnur með mini-sykurpúðum sem ég fékk einnig þar.

Drykkir

Ég steingleymdi að taka þetta saman en við vorum með Pepsi, Pepsi Max, Appelsín, Kristal og Límónukristal allt í litlum dósum og höfðum í fötum fullum af ís. Keyptum einn kassa af hverju (24 stk.) og það var alveg einhver afgangur en okkur öllum finnst dósagos best svo þetta mátti vel vera skammtað rúmlega.

Ribena-djús blönduðum við líka í stóra krukku með krana saman við 4 lítra af Lime-Kristal og fylltum 1 x á svo ég myndi segja 1x Ribena-flaska og 3 x 2 lítrar af Límónu-Kristal ættu að duga. Þetta var mjög vinsælt, sérlega hjá yngri kynslóðinni sem fannst spennandi að skammta sér sjálf í glas/flösku.

Kaffi var ca. 12 uppáhellingar og hver er um 8 bollar svo hellt var upp á eina 96 bolla af kaffi en einhverju var nú hellt úr hitakönnunum í lok veislu.

Tékklisti

Hér fyrir neðan er að finna það sem ég punktaði hjá mér í undirbúningi fermingarinnar. Það má vel vera ég sé að gleyma einhverju og myndi ég segja að þessi listi verði breytilegur og ég komi til með að bæta við hann í framtíðinni.

  1. Velja fermingardagsetningu

  2. Útbúa gestalista

  3. Senda út boðskort (við pöntuðum hjá Pixel og komu þau mjög vel út).

  4. Bóka sal (ef veislan er ekki haldin heima).

  5. Bóka ljósmyndara (gott að fara í myndatökuna um mánuði fyrr, fara í prufugreiðslu og förðun í leiðinni ef þess er óskað. Með þessu móti er minna álag þegar nær dregur og hægt að útbúa myndabók eða framkalla myndir fyrir veisluna. Við vorum með Bent hjá Benzo ljósmyndun og myndirnar hefðu ekki getað heppnast betur).

  6. Panta allt skraut (ef þetta á að vera pantað erlendis frá er gott að vera tímanlega til að losna við óþarfa stúss þegar nær dregur. Við pöntuðum nánast allt á Ali Express og dunduðum okkur með fyrirvara að setja saman pom-poms o.fl.).

  7. Panta gestabók, sálmabók, servéttur og kerti og láta merkja. Við keyptum áletraða gestabók og sálmabók í Garðheimum en ákváðum að við vildum ekki hefðbundið fermingarkerti né servéttur og keyptum slíkt því ómerkt).

  8. Ákveða fermingargjöf fyrir fermingarbarnið.

  9. Velja fatnað á fermingarbarnið (og fjölskylduna). Gott að gera þetta í tíma til að geta farið snemma í myndatöku og haft allt klárt.

  10. Panta hár og förðun (í prufu líka ef vill).

  11. Ákveða veitingar og kökur (skipuleggja hvað á að bjóða upp á og panta ef þarf).

  12. Ákveða fyrirkomulag veislu (t.d. hvort foreldrar eða fermingarbarn hafi ræðu/bjóði gesti velkomna, hvernig skuli boðið að ganga til veitinga, stilla upp gjafaborði o.þ.h).

  13. Fá aðstoð/þjóna í veislu (mikið gott að geta slakað aðeins á og spjallað við gestina og látið aðra sjá um áfyllingu af veitingum).

  14. Kaupa lifandi blóm til skreytinga. Við keyptum öll blóm á föstudegi, fermdum á sunnudegi og geymdum á köldum stað. Þau voru öll dásamlega falleg á fermingardaginn og gott að losna við að þeytast eftir þeim á fermingardaginn sjálfan.

  15. Myndabók

Við hönnuðum og pöntuðum ljósmyndabók hjá Pixel fyrir ferminguna og fannst gestunum gaman að glugga í þær myndir í veislunni, einnig hengdum við myndir á spotta upp á vegg í stofunni.

Þar sem daman æfir listskauta með Birninum voru skautarnir að sjálfsögðu hengdir upp á vegg fyrir ofan gestabókina. Þar var einnig lítið box og miðar þar sem gestir máttu skrifa það sem þeir héldu að Harpa myndi verða þegar hún yrði stór. Hugmyndina fékk ég í fermingu hjá Gyðu vinkonu minni og þetta ásamt gestakveðjunum var gaman að lesa eftir veisluna.

Ef þið eruð með frekari fyrirspurnir ekki hika við að senda mér línu á gotteri@gotteri.is.“

mbl.is/gotter.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka