Vinsælasta bollakaka í heimi

Girnileg er hún þessi vinsælasta bollakaka heims.
Girnileg er hún þessi vinsælasta bollakaka heims. Ljósmynd/OMGchocolatedesserts.com

Við höfum mikið dálæti á því að deila með lesendum okkar hvaða uppskriftir það eru sem eru að slá í gegn á samfélagsmiðlum enda má leiða líkur að því að viðkomandi uppskrift sé nokkuð skotheld.

Hvað þá ef þú setur saman orðið „bollakaka” og „pinterest” – þá getur útkoman ekki klikkað. Þessi uppskrift er tilbrigði við þjóðarrétt Bandaríkjamanna sem er S´mores. Fyrir þá sem eru ekki alveg með það á hreinu hvað S´mores eru þá er það vinsælasta varðeldasnarl vestanhafs og samanstendur af Graham-kexkökum, súkkulaði og sykurpúðum. Úr þessu er búin til samloka sem síðan er hituð yfir eldi þar til sykurpúðinn er orðinn lungamjúkur og súkkulaðið bráðið.

Fyrir þá sem hafa ógnaráhuga á varðeldafæði þá er alþjóðlegi S´more dagurinn haldinn 10. ágúst ár hvert og heimsmetið í að búa til flest S´mores í einu var sett á Huntington Beach í Kaliforníu fyrir tæpu ári síðan þegar 423 manneskjur bjuggu til S´mores samtímis.

En að því sögðu skulum við líta á vinsælustu múffuuppskrift í heimi því hún er það sem kallast tilbrigði við S´mores með innbökuðum sykurpúða og allt. Við hvetjum ykkur til að prófa.

Hellið súkkulaðideiginu yfir botninn og bakið.
Hellið súkkulaðideiginu yfir botninn og bakið. Ljósmynd/OMGchocolatedesserts.com

Vinsælustu bollakökur í heimi

Botninn:

  • 1 og ½ bolli Graham-kex mulið niður
  • 5 msk. sykur
  • 5 msk. ósaltað smjör - brætt

Deigið:

  • 1 egg – vel pískað
  • 2 eggjahvítur
  • 200 gr. hveiti
  • ¾ tsk. lyftiduft
  • ¾ tsk. matarsódi
  • 6 msk. kakóduft
  • ½ tsk. salt
  • 200 gr. sykur
  • 1 msk. vanilludropar
  • 120 ml matarolía
  • 125 ml mjólk
  • 125 ml vatn

Sykurpúðafylling:

  • 100 gr. sykur
  • 2 eggjahvítur
  • ¼ tsk. cream of tartar
  • 1 msk. vanilludropar

Fyrir súkkulaði „ganache“-toppinn:

  • 300 gr. súkkulaði
  • 250 ml rjómi
  • ½ msk. matarolía

Aðferð

Aðferðin við að gera botninn:

  • Setjið grind í miðjan ofninn og stilið á 160 gráður. Gert er ráð fyrir að deigið dugi í 16 múffur.
  • Í skál skal blanda saman Graham-kexinu, sykrinum og smjörinu og blanda vel saman með gaffli.
  • Setjið um 1 og ½ msk. í hvert múffuform.
  • Bakið í 6 mínútur og setjið til hliðar.

Aðferð við að gera deigið:

  • Í stóra skál skal blanda saman kakói, sykri, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti.
  • Bætið við olíu, mjólk, eggi og vanilludropum. Hrærið í tvær mínútur með handþeytara á miðlungshraða. Hellið síðan sjóðandi vatni og blandið vel saman með þeytaranum. Deigið á að verða fremur þunnt. Deilið jafnt í formin.
  • Bakið uns hægt er að stinga tannstöngli í deigið án þess að það verði eitthvað eftir á stönglinum – eða í 20-25 mínútur. Takið beittan hníf eða bollakökukjarnhreinsi (þetta er splunkunýtt orð) og fjarlægið hluta af kökunni úr henni miðri. Ekki borða kökuna heldur geymið.

Aðferð við að gera sykurpúðafyllinguna:

  • Setjið skál yfir vatnsbað og þeytið saman eggjahvíturnar, sykurinn og cream of tartar uns sykurinn er uppleystur. Haldið áfram að þeyta en passið að sjóðandi vatnið snerti alls ekki botninn á skálinni. Þegar eggjablandan er farin að hitna örlítið skulið þið taka skálina af pottinum og halda áfram að þeyta uns blandan er orðin stinn og fín. Bætið þá vanilludropunum saman við og þeytið ögn meir.
  • Setjið fyllinguna í sprautupoka og setjið vænan skammt á hverja köku. Setjið súkkulaðibitann sem þið skáruð burt ofan á.

Aðferð við að gera súkkulaði „ganache“-topp:

  • Á lágum hita skal bræða súkkulaði í potti ásamt ½ msk. af matarolíu. Hrærið uns súkkulaðið er alveg bráðið og fullblandað olíunni. Takið af pönnunni og bæti köldum rjóma saman við uns fullkomlega blandað. Notið skeið til að setja blönduna ofan á hverja köku. Ef blandan er of lin skal setja hana í kæli í smástund.
  • Geymið í kæli.
Sprautið sykurpúðafyllingunni í miðja kökuna eftir að vera búin að …
Sprautið sykurpúðafyllingunni í miðja kökuna eftir að vera búin að hola miðjuna. Ljósmynd/OMGchocolatedesserts.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert