Ég elda gjarnan kalkúnabringu á hátíðisdögum. Við steikingu á kalkúnabringum er miðað við 30-40 mínútur á hvert kg í 170°C heitum ofni. Ég er þó hrifnari af því að elda hana á minni hita í lengri tíma til að forðast að hún ofþorni. Galdurinn að mínu mati felst þó í að setja sítrusávexti, appelsínu og nokkrar sítrónusneiðar, í mótið til að fá ferskt bragð og aukinn raka. Með bringunni ber ég fram maísfrauið hennar ömmu, hvítvínssveppasósu, hunangsgulrætur, rótargrænmeti og sætkartöflumús.
1 kg kalkúnabringa
1/2 appelsína
1/2 sítróna
Smjör
Herb de provance kryddblanda
Kalkúnakrydd
Kalkúnakraftur
Setjið bringuna í eldfastmót.
Nuddið bringuna upp úr kryddi og smjöri.
Raðið appelsínu og sítrónusneiðum yfir bringuna.
Setjið væna smjörklípu yfir bringuna.
Setjið 2 msk. af kalkúnakraft í 200 ml af soðnu vatni og setjið með ofan í mótið.
Setjið lokið á og inn í ofn á 100 gráðu hita í 1,5 klst.
Ausið regulega smjöri yfir bringuna og takið lokið af síðustu 15 mínúturnar. Gott er að stinga kjötmæli í bringuna eftir 1,5 klst. Mælirinn á að sýna 73–74°C. Þá er bringan tilbúin, ef ekki þá þarf hún að vera lengur í ofninum. Gott er að leyfa bringunni að hangsa (hvíla) á borði í um 15 mín. til að hún haldi betur safanum.
Ath! ef bringan verður þurr má redda því með að bræða smjör og setja smá kalkúnakrydd og kannski 1 msk. af appelsínusafa í pott og dreypa yfir kjötið áður en það er borið fram.