Vinsældir myndavefjarins Pinterest eru engu líkar og það sem nær vinsældum þar inni má nánast gulltryggja að er sérlega vel heppnað. Við á matarvef mbl.is höfum verið afskaplega hrifin af því að rýna í hegðun Pinterest-verja og nú beinum við sjónum okkar að vinsælustu BBQ-uppskriftunum en þar var af mörgu að taka.
Greinilegt er að mikilvægt er að rétturinn sé löðrandi í sósu og að rauði liturinn sé nokkuð ráðandi. Girnilegar kjötuppskriftir þar sem sést glitta í rautt kjöt og síðan hnausþykka sósu er næsta víst að slái í gegn. Meðlæti er síður vinsælt til deilinga og því síður kjúklingur. Við deilum hér með ykkur fjórum uppskriftum sem eru hver annarri ólíkar en allar sérlega girnilegar.
Coca-Cola BBQ-rif
Það er kúnst að gera góð rif en hér skiptir eldunin miklu máli. Oftar en ekki eru rifin hægelduð en í þessari uppskrift er ekki gert ráð fyrir því. Passið bara að sjóða rifin nógu vel þannig að kjötið losni af beinunum og munið að vera örlát á sósuna.
Fyrir rifin:
1,5 l af kóki
1 laukur, skorinn í ferninga
6 hvítlauksgeirar, maukaðir
2 lárviðarlauf
1 msk. svört piparkorn
2 baby back-rif (sem samsvarar 1,5 kílóum)
Sósan:
100 g ósaltað smjör
1 laukur, smátt skorinn
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
240 ml tómastósa
1½ msk. sætt sinnep
60 ml púðursykur
1 tsk. Worchestershire-sósa
1 dós af kóki (33 cl)
Sjávarsalt og ferskur svartur pipar eftir smekk
Rifin:
Í stóran pott skal setja kókið, laukinn, hvítlaukinn, lárviðarlaufin og piparkornin. Bætið rifjunum út í pottinn og örlitlu af vatni ef þarf til að vökvinn nái yfir rifin. Látið suðuna koma upp og lækkið undir. Snúið rifjunum reglulega þar til kjötið losnar af beinunum. Þetta ætti að taka klukkustund eða svo.
Sósan:
Blandið saman smjöri, lauk, hvítlauk, tómatsósu, sinnepi, púðursykri, Worchestershire-sósu og kóki á stóra pönnu. Látið suðuna koma upp og lækkið undir. Látið sjóða í 25 mínútur eða svo og hrærið reglulega eða þar til sósan er orðin þykk og girnileg. Kryddið með salti og pipar. Setjið sósuna að lokum í blandara og maukið hressilega.
Athugið að hægt er að gera sósuna allt að fimm dögum áður.
Hitið grillið og hafið hitann háan.
Takið rifin úr pottinum og þerrið. Kryddið með salti og pipar og penslið ríflega með sósunni. Grillið og snúið reglulega þar til rifin eru farin að dökkna á brúnunum og eru augljóslega tilbúin.
Berið fram með hverju sem ykkur dettur í hug, til dæmis hrásalati, bökuðum kartöflum og maísstönglum.
Súrsæt chili og ananassósa
Þessi sósa er hreinasta dásemd og passar svo vel með grilluðum mat að okkur þykir nóg um. Í raun má nota þessa sósu með hverju sem er en okkur þykir hún langbest með grilluðum kjúklingi og góðu salati.
300 g sykur
250 ml ananassafi
100 ml edik eða eplaedik
1 msk. hvítlaukur, maukaður
2-3 tsk. chili-flögur
1 msk. tómatsósa
1 tsk. salk
4 msk. kartöflumjöl
4 msk. vatn
Setjið sykur, ananassafa, edik og salt í pott. Látið suðuna koma upp.
Bætið chili-flögunum, hvítlauknum og tómatsósunni við. Sjóðið í fimm mínútur
Lækkið hitann og hrærið kartöflumjölinu og vatninu saman við. Passið að sósan hlaupi ekki í kekki.
Látið sósuna malla á lágum hita þar til hún nær þeirri þykkt sem þið viljið en munið að hún þykknar umtalsvert þegar hún kólnar.
Kælið sósuna og setjið í krukku.
Beikonsprengjur með kjúklingi
Þessi uppskrift er vandræðalega girnileg og ætti að vera á allra færi. Hún sameinar flest það sem einkennir gott grill og fær flesta til að kætast mjög. Þetta er sérlega vel heppnaður partíréttur og einn sá allra vinsælasti á Pinterest.
5 kjúklingabringur
5 jalapeno, skorin í tvennt (langsum) og fræhreinsuð
120 g rjómaostur, við stofuhita
100 g cheddar-ostur, rifinn
salt og pipar eftir smekk
20 sneiðar af beikoni
250 ml BBQ-sósa
Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Hver sneið fer í eina sprengju.
Berjið sneiðarnar uns þær eru orðnar 5-8 mm að þykkt.
Kryddið með salti og pipar.
Blandið saman í skál rjómaosti og cheddar-osti.
Fyllið hvern jalapeno-helming með 1 msk. af ostablöndunni.
Leggið jalapenjo sem búið er að fylla ofan á kjúklingasneið og vefjið kjötinu nett utan um piparinn. Vefjið síðan tveimur sneiðum af beikoni (einni í einu) utan um kjúklinginn og gyrðið endana ofan í. Hver sprengja á að vera það vel vafin það enga tannstöngla þarf til að halda þeim saman
Grillið í 25-30 mínútur og snúið reglulega til að þær brenni ekki. Fylgist vel með sprengjunum því þær geta brunnið og passið að kjúklingurinn sé gegneldaður áður en þið borðið þær.
Greinilegt er að mikilvægt er að rétturinn sé löðrandi í sósu og að rauði liturinn sé nokkuð ráðandi. Girnilegar kjötuppskriftir þar sem sést glitta í rautt kjöt og síðan hnausþykka sósu er næsta víst að slái í gegn