Sumarlegt rjómapasta með tígrisrækjum

Rjóminn er að gera gott mót hér.
Rjóminn er að gera gott mót hér. mbl.is/laeknirinnieldhusinu.com

Ragnar Freyr Ingvarsson er kominn í sumarskap! „Ég sá þessar stærðarinnar tígrisrækjur í frystinum hjá vinum mínum í Fiskbúðinni við Sundlaugaveginn. Svo greip ég aspas með mér – vorin eru tími fyrir aspas.“ Ragnar segir pastað vera fljótgert en ákaflega bragðgott.

Ljúffengt spaghetti með tígrisrækjum, rauðum chili, hvítlauk og nýjum aspas
Fyrir fjóra til sex

500 gr. tígrisrækjur
1/2 rauður chili
4 hvítlauksrif
handfylli fersk steinselja
Smáræði af basil
75 ml af hvítvíni
100 ml af rjóma
500 g spaghetti
75 g parmaostur
5-6 aspasspjót
50 g smjör
salt og pipar

Sjóðið pasta í nóg af vatni. Stundum er talað um 1 l fyrir hver 100 g af pasta – en það er líklega heldur yfirdrifið, en alla vega – nóg af vatni. Saltið vatnið og sjóðið pastað í kraumandi vatni – lokið á ekki að vera á pottinum.

Sjóðið pastað þangað til að það er al dente – eða aðeins undir tönn þegar bitið er í það.

Á meðan pastað er að sjóða, bræðið smjörið á stórri pönnu og steikið chili, hvítlauk og smávegis af steinseljunni með.

Skellið svo rækjunum á pönnuna, saltið og piprið. Steikið í smástund.

Hellið víninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið.

Og svo rjómi. Ekki matreiðslurjómi – alvöru rjómi!

Næst nokkur lauf af basil.

Skellið pastanu út á pönnuna.

Veltið pastanu vel í sósunni þannig að það verði vel hjúpað.

Stráið nóg af parmaosti yfir pönnuna. Sumir segja að parmaostur og fiskmeti passi ekki saman – pecorino-osturinn sé betri þar sem hann er aðeins saltari. Ég átti þennan dásamlega parmaost sem ég keypti á Ítalíu núna í byrjun maí og notaði hann auðvitað.

Pastað þarf bara nokkrar mínútur á pönnunni og þá er það tilbúið.

Ég skar aspasinn í þunnar sneiðar og steikti þær upp úr smjöri í nokkrar mínútur – til að nota eins og skraut á pastað.

Svo er bara að velja eitthvert ljúffengt vín til að hafa með þessum herlegheitum. Ég átti þessa til í kælinum – Marques Casa Concha Chardonnay frá 2014. Vínið er fallega strágult í glasi og það er kröftugur og nærri því sultaður ávöxtur á nefinu. Á bragðið – mikil ávöxtur, þurrt og þykkt á tungu. Fyrirtakshvítvín með þessum rétti!

Svo er ekkert nema að taka fram gaffla og skeiðar og njóta.

Bon appetit! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka