Þrjár dætur sem borða bara grænmeti. Það var veruleikinn sem heimilisfaðirinn og ástríðukokkurinn Jón Yngvi Jóhannsson stóð frammi fyrir þegar yngri dætur hans tvær ákváðu að feta í fótspor eldri systur sinnar og gerast grænmetisætur. Hann dó ekki ráðalaus og gaf á dögum út bókina Hjálp! Barnið mitt er grænmetisæta sem inniheldur fjölda frábærra grænmetisuppskrifta sem ætti að auðvelda mörgum lífið.
„Ég á þrjár dætur, sú elsta, sem er 23 ára gömul og býr núna í Amsterdam þar sem hún stundar myndlistarnám, hætti að borða kjöt fyrir einum sex árum síðan. Stuttu seinna hætti hún líka að borða fisk og varð alger grænmetisæta. Systur hennar fylgdu í kjölfarið, þær eru núna 17 og 19 ára. Þannig að fyrir nokkrum árum síðan voru þrír af fimm fjölskyldumeðlimum orðnir grænmetisætur. Þetta var í sjálfu sér ekki mikið mál á okkar heimili. Ég hef mjög gaman af því að elda mat og tók þessu sem áskorun um að prófa eitthvað nýtt. Vegna þess að við reynum að borða saman kvöldmat á hverjum degi var einfaldast að fara að elda grænmetismat fyrir alla fjölskylduna,“ segir Jón Yngvi um tilurð bókarinnar en hún hefur hlotið frábærar viðtökur og greinilegt að grænmetisætum fer sífellt fjölgandi.
„Á hinn bóginn tók ég eftir því að sumir vina stelpnanna sem höfðu tekið sömu ákvörðun mættu ekki sama skilningi heima og lifðu mest á brauði með hnetusmjöri, bökuðum baunum og nammi. Ástæðan var oft og tíðum sú að fólk kunni ekki að elda rétti sem eru hreinir grænmetisréttir, flestir Íslendingar eru jú aldir upp við mikið kjöt- og fiskát. Hugmyndin að bókinni fæddist við kvöldverðarborðið eins og svo margar góðar hugmyndir. Ég hafði lengi gengið með þann draum í maganum að skrifa matreiðslubók og þarna fannst mér ég hafa fundið hugmynd að bók sem ekki bara gæti verið gaman að skrifa, heldur ætti erindi við stóran hóp fólks. Af ýmsum ástæðum, ekki síst umhverfislegum, ættu allir að borða meira grænmeti. Ef ég get hjálpað fólki til að gera það þá er tilganginum náð.“
Hefur grænmetisátið haft félagslegar afleiðingar fyrir fjölskylduna (sjaldan boðið í veislur eða eitthvað í þá veruna)?
„Nei, alls ekki. Við borðum mjög oft með öðru fólki, bæði fjölskyldu og vinum. Auðvitað getur verið snúið að bjóða blandaðri fjölskyldu í mat, en fólk er almennt tilbúið til að prófa nýja hluti. Svo vitum við flest að við eigum að borða meira grænmeti þannig að stundum er það kærkomin ástæða til að prófa að hafa grænmeti uppistöðuna í matnum eða jafnvel að elda hreinan grænmetismat þegar fólk býður okkur í mat.“
Uppáhaldsmatur á heimilinu?
„Dætur mínar eru ólíkar um margt og meðal annars hafa þær ólíkan smekk á mat. Ef ég ætti að nefna einn rétt sem alltaf virkar þá myndi ég nefna kasjúhnetu- og kjúklingabaunakarrí sem er í bókinni. Það er alveg skotheldur hversdagsmatur, ég ber hann oft fram með íslensku byggi frekar en hrísgrjónum, það er matarmeira, betra og umhverfisvænna.“
Ertu með einhver skotheld ráð handa foreldrum sem eiga börn sem borða ekki grænmeti?
„Það er góð spurning. Áður en dætur mínar urðu grænmetisætur voru þær ekkert ólíkar öðrum börnum með það að stundum var erfitt að koma ofan í þær grænmeti. Ég hafði ýmis ráð til þess. Þegar ég eldaði samansoðna rétti, t.d. hakk og spaghettí eða lasagna, þá hafði ég alltaf mikið grænmeti, lauk, gulrætur og sellerí í sósunni, en maukaði það saman við tómatana áður en ég bætti kjöti við, stundum er það áferðin á grænmeti frekar en bragðið sem krökkum finnst ekki gott. Besta ráðið er samt að nota frönsku aðferðina, bjóða börnum upp á hrátt, niðurskorið grænmeti fyrir matinn, jafnvel með góðri ídýfu. Flestum börnum finnst gulrætur, blómkál, rófur og fleira grænmeti betra hrátt og ef það er borið á borð fyrir þau þegar þau eru svöng, áður en aðalrétturinn kemur á borðið, þá eru þau mjög dugleg við að borða það.“
Fyrir óvanar grænmetisætur – hvernig er best að byrja?
„Það er auðvitað til alls konar kjötlíki sem getur verið ágætt að grípa til, en ég er ekkert sérstaklega hrifinn af því sjálfur, eina undantekningin eru íslenskar bulsur sem eru mjög skemmtilegt hráefni. En ef ég ætti að gefa fólki eitt ráð þá er það að læra að borða og elda baunir. Það er töluvert af uppskriftum í bókinni þar sem baunir eru notaðar „í staðinn fyrir“ kjöt í réttum sem eru annars mjög kunnuglegir.“
„Við foreldrarnir borðum einstaka sinnum kjöt ef þær eru ekki heima. Þó er algengara að við borðum fisk, ég sakna hans satt að segja miklu meira en kjötsins. Þannig að ef stelpurnar eru ekki í mat þá stekk ég gjarnan í fiskbúðina okkar í hverfinu, á Sundlaugarvegi, og elda fisk fyrir okkur tvö. Sem er mjög þægilegt, það er miklu einfaldara að elda fisk fyrir tvo en heila fjölskyldu.“
Lumarðu á einhverri góðri sögu þar sem titill bókarinnar á sér hliðstæðu í raunveruleikanum?
„Bókin sprettur náttúrulega úr mínum raunveruleika. En eftir að hún kom út hefur fjöldi fólks komið að máli við mig og sagt mér að þetta sé einmitt bókin sem það var að bíða eftir. Sífellt fleira ungt fólk, börn, barnabörn og tengdabörn okkar sem erum á miðjum aldri, velur að borða ekki kjöt og fisk, sem er frábært.“
Kalt pastasalat með avókadói
Pasta er ein þeirra matartegunda sem maður veit aldrei alveg frá degi til dags hvort eru hollar eða óhollar. Nýjustu rannsóknir í næringarfræði gefa þó vísbendingar um að pasta sem hefur verið soðið og síðan kælt geti verið hollara en pasta sem er borðað heitt. Pastasalöt eru enda fyrirtaks matur, ekki síst á sumrin og sem nesti. Þetta salat er fallegt á borði, það er matarmikið og bráðhollt. Það er tilvalið að búa það til kvöldið áður en á að borða það ef maður sér fyrir að hafa lítinn tíma til að elda kvöldmatinn.
Aðferð:
Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakka og látið það kólna. Takið af avókadóunum, skerið í bita og maukið með majónesinu í matvinnsluvél. Skerið afganginn af avókadóunum í grófa bita. Saxið blaðlaukinn fínt og skerið tómatana í tvennt, eða í fernt ef þeir eru stórir. Blandið öllu saman og dreifið söxuðu kryddjurtunum yfir.
Vegan majónes
Flestar grænmetisætur borða auðvitað venjulegt majónes og það er ekkert sérstaklega erfitt að búa það til sjálfur. En fyrir þá sem vilja ganga skrefinu lengra og sniðganga allar dýraafurðir er til frábær aðferð til að búa til eggjalaust majónes sem er ótrúlega bragðgott og líkt fyrirmyndinni. Grunnurinn að því er það sem á ensku er kallað aquafaba, soð af kjúklingabaunum, hvort sem er úr dós eða af baunum sem maður hefur sjálfur soðið.
Setjið baunasoðið í blandara eða matvinnsluvél. Þeytið soðið í tvær til þrjár mínútur eða þar til það er orðið ljóst og freyðandi, látið vélina ganga áfram og byrjið á að hella olíunni í dropatali út í soðið. Haldið áfram hægt og rólega þar til áferðin er orðin eins og á hefðbundnu majónesi. Bragðbætið með sinnepi, salti og ediki.
Jóhannsson