Berlín norðursins

Sveinn Sævar Frímannsson hefur slegið í gegn á Akureyri með …
Sveinn Sævar Frímannsson hefur slegið í gegn á Akureyri með veitingahúsinu Berlín. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Við Skipagötuna á Akureyri er veitingastaðurinn Berlín sem þykir með þeim betri norðan heiða og þótt víðar væri leitað. Maðurinn í brúnni heitir Sveinn Sævar Frímannsson og er Norðlendingum að góðu kunnur. Hann er borinn og barnfæddur á Húsavík og ber sterkar taugar þangað en hefur lengi búið á Akureyri og kann því vel.

Berlín opnar klukkan sjö á morgnana og er opinn til sex á daginn. „Við leggjum áherslu á frábæran morgun- og hádegisverð þar sem mikið er lagt upp úr hollustunni,“ segir Sveinn eða Svenni eins og hann er alltaf kallaður. „Mikið af góðum salötum og svo auðvitað kjúkling, það elska allir kjúkling.“

Svenni er lærður framreiðslumaður en fyrir gráglettni örlaganna endaði hann sem kokkur á veitingastaðnum Pallinum á Húsavík. „Það var síðan alltaf á planinu að opna sinn eigin stað,“ segir Sveinn en Berlín opnaði í nóvember 2015.

Morgunmaturinn vinsæll á sumrin

Reyktur lax, avókadó og vöfflur eru ríkjandi á matseðlinum og hægt er að klæðskerasníða máltíðina að eigin þörfum. Boðið er upp á suma rétti allan daginn en síðan eru ákveðnir réttir einungis í boði á morgnana eða í hádeginu.

Viðtökurnar hafa verið vonum framar og greinilegt að heimamenn kunna gott að meta. Mikið er að gera allan daginn, og það er ekki síst morgunverðurinn sem er vinsæll enda þykir hann sérdeilis góður. „Hér sjást líka Húsvíkingar endrum og eins sem er gaman,“ bætir Sveinn enda ekki langt fyrir Húsvíkinga að fara á milli.

Frímann ekki enn mættur

Faðir hans, Frímann Sveinsson, er matreiðslumeistari á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík og vel þekktur á heimaslóðunum enda afbragðs matreiðslumaður og ekki síðri tónlistarmaður. Það er því ljóst að Svenni á ekki langt að sækja hæfileikana.

Aðspurður segir Svenni að það hafi nú lengi staðið til að Frímann kæmi í eldhúsið og byði upp á sérrétt sinn sem er lamb í bernaise-sósu en enn hafi ekki orðið af því. Fjölskyldan komst í fréttirnar á síðasta ári þegar pílagrímsför þeirra til Parísar til að heimsækja upprunastað bernaise-sósunnar breyttist í fótboltagleði þar sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu var að slá í gegn.

Þeir feðgar þykja með afbrigðum skemmtilegir menn og því ljóst að það verður happafengur fyrir gesti Berlínar þegar Frímann mætir í eldhúsið. Sjálfur er Svenni rólegri í tíðinni og hlær að þessu öllu saman en segist endrum og eins bjóða upp á bernaise-sósu í hádeginu enda sé alltaf boðið upp á rétt dagsins þá, sem er síbreytilegur.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Veitingastaðurinn Berlín við Skipagötu á Akureyri býður upp á girnilegan …
Veitingastaðurinn Berlín við Skipagötu á Akureyri býður upp á girnilegan matseðil. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Reyktur lax og avocado


1 egg
1 sneið gott brauð, ristað
2 sneiðar reyktur lax
1 þroskað avocado
Salt, pipar og þurrkað chilli
Sriracha chilli mayo

Setjið eggið út í sjóðandi vatn og sjóðið í 6 mínútur og kælið í 15 sek. undir kaldri bunu. Á meðan eggið sýður ristið þið brauðið og flysjið avócadóið og skerið í fallegar þunnar sneiðar og kryddið með salti, svörtum pipar og chilli-flögum. Öllu raðað fallega upp á disk, eggið tekið úr skurninni og kryddað með sömu kryddum og avócadóið. Borið fram með Sriracha chilli mayo.

Engifer, grape og appelsínusafi

1 cm engifer
1 rautt grape flysjað
2 appelsínur

Allt sett í safapressuna og hellt í fallegt glas með klaka

Indverskt kjúklingasalat

fyrir 4

4 kjúklingabringur
Garam masala-kryddblanda
1 poki falleg salatblanda
Ólífuolía, salt og pipar
1 mangó skorið í litla teninga
1/2 gúrka skorin í þunnar sneiðar með ostaskera
2 avócadó flysjað og skorið í þunnar sneiðar

Dressing

1 Grísk jógúrt
2 mál Mangó chutney
Safi úr einu lime

Allt sett í blender þangað til vel blandað.

Hnetumix

50 g kasjúhnetur
60 g pecanhnetur
30 g möndlur með hýði
40 g graskersfræ
1 msk. sólblómafræ
1 msk. sesamfræ
2 msk. sólblómaolía
1 msk. hunang
1 msk. sjávarsalt
1 msk. pipar
1 msk. cayenne-pipar
 

Hitið ofninn í 170 gráður, blandið hnetum, fræjum, olíu og hunangi saman á ofnplötu með bökunarpappír. Setjið inn í ofn í 10 mín. og hrærið í á 5 mín. fresti. Hrærið pipar og salti saman við og látið kólna.

Brúnið kjúklingabringurnar á pönnu, kryddið með garam masala og bakið í ofni í 20 mín.

Blandið salatið með ólífuolíu, salti og pipar og skiptið á 4 diska. Skiptið mangóinu, gúrkunni og avócadóinu á diskana. Skerið kjúklingabringurnar í fallegar sneiðar og leggið á salatið. Því næst er dressingunni hellt yfir kjúklinginn og svo hnetumixi eftir smekk. Gott er að gera vel af hnetumixi og nota jafnvel út á gríska jógúrt, hafragrautinn eða bara eitt og sér sem snakk með góðum bjór.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert