Þórdís Wathne er ein þeirra sem standa að baki frumkvöðlafyrirtækisins Reykjavík Foods. Fyrirtækið setti í síðustu viku á markað sínar fyrstu vörur, hægeldaðan lax í dós. „Einungis er notast við hágæða lax frá Vestfjörðum sem er bragðbættur með hreinum náttúruafurðum eins og basilíku, hvítlauk, truflum og sjávarsalti frá Saltverki,“ segir Þórdís en hún segir laxinn vera hið mesta sælufæði.
„Fyrstu viðbrögð eru að laxinn er að fá góðar viðtökur og hefur fyrsta sending í verslanir selst upp og stöndum við í ströngu við að fylla á þær ásamt því að bæta við verslunum þar sem hægt er að nálgast vöruna. Vörurnar hafa jafnframt fengið alþjóðlega athygli og er Reykjavík Foods í viðræðum við nokkra aðila í sambandi við útflutning.“
Spurð um hvort hráefnið fari ekki illa við vinnsluna svarar Þórdís að svo sé ekki. „Við setjum ferskan lax í dósina nýlega eftir veiðar, söltum með salti frá Saltverki og notum einungis náttúruleg bragðefni eins og ferska basilíku, hvítlauk og trufflur. Dósinni er lokað, þannig fer hún í suðu, við vægt hitastig. Þar sem hráefnið er soðið í lokaðri dós verða engar örverur á kreiki og þannig næst þetta langa geymsluþol. Þetta er í raun með heppilegri geymsluaðferðum matvæla sérstaklega þar sem svona ferskt hráefni fer í dósina og þá verða gæðin framúrskarandi. Við gerðum mælingar á næringarinnihaldi og þar kom í ljós að varan tapar ekki næringarinnihaldi m.v. hefðbundna eldun og í raun verður hún sérstaklega bragðgóð þar sem hún eldast í lokuðu ferli í eigin safa sem kemur af laxinum. Engum aukaefnum er viðbætt,“ segir Þórdís og bætir við að laxinn sé hentug og fljótleg vara hvort sem er á snittuna í kokteilboðinu, út á salatið, með í fjallgönguna eða bara upp úr dósinni eftir æfinguna. Hún deilir hér með okkur sinni uppáhaldsuppskrift að salati með laxi og mangó.