Eva María Hallgrímsdóttir, eigandi kökugerðarinnar Sætar syndir, hefur flutt bökunaraðstöðu sína í Hlíðasmára í Kópavogi. Nú er einnig hægt að koma við og velja úr tilbúnum kökum fyrir þá sem vilja gleðja með litlum fyrirvara. „Í nýja húsnæðinu okkar erum við erum með mjög stóran ofn og hrærivél og erum því nokkuð fljótar að baka vikuskammtinn okkar en við vinnum alltaf viku í senn, þ.e. á mánudögum förum við yfir allar pantanir sem við þurfum að skila af okkur og undirbúum allt skraut og svo bakstur,“ segir Eva alsæl með nýtt og betra húsnæði. Í tilefni flutninganna var því haldið dísætt innflutningspartý þar sem kolvetnisþoka og kökudraumar mættust.
Aðspurð hvað sé vinsælast í tertum sem stendur segir Eva að svokallaðar drip-kökur sé ákaflega vinsælar. Drip-kökur eru sum sé tertur þar sem kremið virðist leka niður hliðarnar.
„Vinsælasta fyllingin okkar þessa dagana er vanillubotnar með saltkaramellu og smjörkremi sem og súkkulaðibotnar með saltkaramellu. Við búum til okkar eigin saltkaramellu og hefur hún slegið í gegn,“ segir Eva sem hlakka til þess að taka á móti kökuþyrstum kaupendum í Kópavogi. „Til að byrja með verði drip-kökur og bollakökur til sölu í kökubúðinni auk sérpantaðra terta en stefnan er að auka við vöruúrvalið jafnt og þétt.“