Dásamleg fiskisúpa og brauðbollur með basilíku

Karen eldar gjarnan stóran súpuskammt og frystir.
Karen eldar gjarnan stóran súpuskammt og frystir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Vinkonurnar Guðrún Eyþórsdóttir og Karen Erla Sverrisdóttir snyrti- og fótaaðgerðafræðingarnir reka saman snyrtistofuna Pandóru í Mjódd. Þær eru ekki aðeins lunknar í snyrtingum heldur elda þær einnig dýrindis mat og sameina oft krafta sína eins og sést hér í fullkomnum helgarmatseðli. „Okkur finnst gaman að hittast með fjölskyldurnar og elda saman og leyfa krökkunum að leika sér,“ segir Karen en hún eldar gjarnan stóran skammt af súpu í einu.

„Það er svo lítið mál að gera mikið af súpu og ég geri alltaf stóran skammt og set í poka og frysti svo og á þá tilbúinn mat síðar. Ég er alltaf með marga súpupoka í frystinum og nokkrar tegundir.“

Brauð eða brauðbollur að hætti Guðrúnar

1 dós maukaðir tómatar
1tsk salt
2 tsk basilika
1 tsk hunang
40 g ger 
550 g spelt

Hitið tómatmaukið að suðu (ekki láta sjóða) og setjið í skál ásamt salti, basiliku, geri og hunangi saman við og blandið öllu vel saman. Bætið þá spelti saman við og hnoðið deigið þar til það er kekkjalaust. Látið deigið hefast í 1 klukkustund.

Sláið það niður og hnoðið aftur,

Bollur: mótið pylsur og skiptið í 8 hluta, mótið bollur og setjið á bökunarpappír og á plötuna. Látið hefast í 20 min.

Brauð: mótið stóra pulsu og setjið í brauðform. Látið hefast í 20 mín.

Það er mjög gott að mylja fetaost með kryddolíu yfir bollurnar ásamt smá salti og basiliku áður en þær eru settar í ofninn. Bakið við 180 gráður í ca 15-20 mín og kælið á bökunargrind.

Fiskisúpa Karenar

smjör/olía
2,5 l vatn
6 hvítlauksgeirar
2 stk laukur
3 rauðar papríkur
1 poki gulrætur ca 8-10 stk
700 g lax
700 g steinbítur
1 kg rækjur
1 stór askja rjómaostur
2 stk piparostur
1 stór dós tómatpúrra
2 dósir af niðursoðnum tómötum í bitum
250 ml rjómi
papríkukrydd
grænmetiskraftur
kjúklingakraftur
salt og pipar 

Steikið með smjöri eða olíu allt grænmeti þar til laukurinn verður fallega brúnn, bætið við vatni, kjúklingakrafti, grænmetiskrafti, 1 tsk af papríkukryddi og smá salt og pipar og leyfið að sjóða í 10-15 mínútur. Smakkið til og kryddið frekar ef þarf.

Setjið út í pottinn rjómaost, piparost, tómatpúrru og niðursoðnu tómatana, blandið vel saman og leyfið ostinum að bráðna.

Smakkið til og bætið við salti og pipar eða grænmetiskrafti ef þið viljið hafa meira bragð, bætið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma aftur upp

Skerið fiskinn í góða munnbita, meðan súpan er að sjóða þá setjið þið fiskinn og rækjurnar útí, hrærið varlega í og bíðið þangað til suðan kemur aftur upp. Þá er súpan tilbúin. 

Girnilegt og gott.
Girnilegt og gott. mbl.is/Hanna Andrésdóttir
Brauðið má einnig gera sem bollur.
Brauðið má einnig gera sem bollur. mbl.is/Hanna Andrésdóttir
Guðrún og Karen reka snyrtistofuna Pandora í Mjódd.
Guðrún og Karen reka snyrtistofuna Pandora í Mjódd. mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert