Rib-eye-steik með gráðostasmjöri

Ljósmynd: People Magazine

Þó að veðrið sé frekar glatað er alveg hægt að henda í eina góða steik. Þessi uppskrift er sérlega girnileg enda kemur hún úr smiðju Jessicu Seinfeld sem er matgæðingur mikill, margfaldur metsöluhöfundur auk þess sem hún er gift grínistanum Jerry Seinfeld. Uppskriftin segir hún að sé í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni og við trúum henni vel. 

Því hvað hljómar betur en djúsí steik og gráðostur?

Eiginlega bara fátt...

Rib-eye steik með gráðostasmjöri

  • 2 stórar (6-700 gramma) rib-eye-steikur með beini (ef kostur er)
  • 60 gr. ósaltað smjör við stofuhita
  • 60 gr. mulinn gráðostur (u.þ.b. ½ bolli)
  • 1 msk. fersk timian-lauf
  • ¾ tsk. svartur pipar, nýmalaður
  • 1 tsk. sjávarsalt
  • 2 msk. extra-virgin ólífuolía

Aðferð:

  1. Látið steikurnar standa þannig að þær nái stofuhita. Hrærið saman smjöri, gráðosti, timíani og ¼ teskeið af pipar í lítilli skál.
  2. Saltið steikurnar og setjið afganginn af piparnum á þær.
  3. Hitið olíuna í stórri steikarjárnspönnu eða annarri sambærilegri þungbotna pönnu. Þegar pannan er orðin sjóðandi heit skal skella steikunum á hana og steikja þar til brún skorpa er farin að myndast á botninum eða í 5-7 mínútur.
  4. Snúið steikunum og steikið í 5-7 mínútur. Ef þið eigið kjötmæli á hann að sýna 45-50 gráðu hita. Á síðustu metrunum gætuð þið þurft að snúa steikunum oft til að þær brenni ekki.
  5. Takið steikurnar af pönnunni og látið standa á bretti í 10 mínútur eða svo til að hvíla þær. Setjið gráðostasmjörið ofan á þær áður en þið berið fram.
  6. Þetta ætti að duga ofan í fjóra.  
Jessica Seinfeld.
Jessica Seinfeld. Ljósmynd: Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert