Skírnarveislan sem sló öll met í glæsileika

Ljósmynd/Gotteri.is

Það eru fáir jafnflinkir í kökugerð og Berglind Hreiðarsdóttir sem heldur áfram að halda veislur sem fá venjulegt fólk til að súpa hveljur af aðdáun. Það dásamlega við Berglindi er að hún er alltaf til í að hjálpa okkur hinum og ráðleggja þannig að með hennar hjálp er ekki loku fyrir það skotið að maður gæti leikið þetta eftir (eða ekki).

Sjá frétt mbl.is: Líklega flottasta fermingarveisla í heimi.

Hún skírði á dögunum dóttur sína og skellti í eina smáveislu af því tilefni. Við fengum að birta alla dásemdirnar og leyfum henni að fá orðið eins og henni einni er lagið:

Þann 11. júní síðastliðinn fékk litla monsan okkar nafnið Hulda Sif. Skírnin fór fram í Lágafellskirkju og að athöfn lokinni buðum við nánustu vinum og ættingjum heim í grillaða hamborgara og vorum með kökur í eftirrétt í yndislegu sumarveðri. Krakkarnir gátu verið úti á trampólíni og hluti gestanna sat úti á palli í góða veðrinu, enda alltaf gott veður þann 11.júní en það er einmitt líka brúðkaupsdagur okkar hjóna.

Þar sem ég elska allt sem er „mini“ þetta eða hitt samanstóð kökuborðið af litlum bitum, fyrir utan skírnartertuna sjálfa.

Hér fyrir neðan getið þið fundið uppskriftir og hugmyndir að ýmsu góðgæti úr veislunni!

Ljósmynd/Gotteri.is

Kökupinnar gera öll veisluborð fallegri fyrir utan að vera dásamlega góðir, það er bara þannig! Að þessu sinni var ég með vanilluköku blandaða í vanillukrem og dýfði í hvítt, bleikt og peach-súkkulaði sem ég skreytti með litlum sykurkúlum.

Ljósmynd/Gotteri.is

Mér finnst gaman að bera kökupinna fram og það er ýmist hægt að hafa þá á hvolfi eða láta þá standa upprétta. Á efri myndinni er ég búin að fylla bleikan blómavasa af mini-sykurpúðum og þar sem vasinn er frekar „hlykkjóttur“ var hægt að raða mikið af pinnum í hann og fannst mér þessi uppstilling koma frábærlega vel út. Á neðri myndinni eru pinnarnir hins vegar á litlum kökudiski á fæti en þannig ber ég þá oftast fram þar sem það er einfaldast, held samt að blómavasinn sé kominn til að vera í kökupinnauppstillingu hjá mér eftir þessa tilraun.

Ljósmynd/Gotteri.is

Mini-bollakökurnar eru úr súkkulaði Betty Crocker-kökumixi, skreyttar með smjörkremi í mismunandi litum. Ég notaði stút 104 frá Wilton til að ná fram blúnduáferð á kökurnar og kom það ótrúlega vel út. Kökunum raðaði ég síðan á tveggja hæða bakka og slógu þessar alveg í gegn.

Ljósmynd/Gotteri.is

Kökur í krús verða líklega nýja uppáhaldið mitt eftir þessa tilraun en ég hef lengi ætlað að prófa eitthvað í þessum dúr. Hér getið þið fundið uppskrift að kræsingum í krús og það er einfaldara en maður heldur að útbúa þessi krúttheit.

Ljósmynd/Gotteri.is

Makkarónur eru alltaf fallegar á veisluborði og að þessu sinni útbjó ég slíkar með karamellufyllingu og var umtalað í veislunni hversu góðar þær væru. Uppskriftina að þessum dúllum er að finna hér.

Ljósmynd/Gotteri.is

Skírnarkakan sjálf er súkkulaðikaka með súkkulaðikremi á milli laga, síðan skreytt með vanillusmjörkremi. Ég notaðist eðlilega við Betty Crocker Devils Food Cake Mix með smá tvisti, enda er það mín uppáhaldssúkkulaðikaka. Bæti alltaf aukaeggi í uppskriftina, 2 msk. bökunarkakó og 1 pk. af Royal-súkkulaðibúðingsdufti. Uppskrift að súkkulaði- og vanillusmjörkremi finnið þið síðan hér. Ég gerði 3 botna af hvorri kökustærð, 8 og 6 tommu sem eru milli 2-3 kökumix, restina notaði ég í mini-bollakökurnar. Hvern botn skar ég síðan í tvennt með kökuskera og útbjó tvöfalda uppskrift af súkkulaðikreminu sem ég smurði á milli þeirra og einnig þurfti tvöfalda uppskrift af vanillukremi til að skreyta með, munið bara að skipta uppskriftinni upp eftir þeim litum sem þið ætlið að nota.

Ljósmynd/Gotteri.is

Mikilvægt er síðan að nota pappaspjald og súlur til að halda efri kökunni uppi og slíkar græjur er hægt að kaupa í Allt í köku eða á netinu. Kökuskiltið með nafninu pantaði ég hjá Hlutprent en þessi skilti eru algjör snilld og á ég án efa eftir að nýta mér þeirra þjónustu oftar í framtíðinni.

Ljósmynd/Gotteri.is

Mig hefur lengi langað að prófa „watercolor effect“ á köku svo þetta var fyrsta tilraun með slíkri. Ég gerði efri kökuna með þessari aðferð og síðan notaðist ég við stóran laufastút (125 frá Wilton) á neðri kökuna og sprautaði blúndum með mislitu kremi og setti eitt sykurmassablóm á toppinn fyrir utan fallega nafnaskiltið. Getið séð skreytingaraðferðina hér.

Ljósmynd/Gotteri.is


Það þarf síðan ekki alltaf að vera flókið! Hér er ég með mini Flipper-sælgæti sem ég setti í bleika skál á veisluborðið. Flipper hefur verið eitt uppáhaldsnammið mitt frá því ég man eftir mér og þegar ég fer í IKEA kaupi ég mér venjulega lager af því. Þegar ég rakst á þessa mini-útgáfu í Nettó um daginn var ég ekki lengi að grípa með mér nokkra poka, síðan var svo heppilegt að þetta var alveg í stíl við kökuborðið.


Þar sem það er síðan svo sumarlegt að hafa karöflur með ávöxtum, vatni og þess háttar útbjó ég þrjá mismunandi drykki á þann mátann.

Í einni könnunni var ég með Egils-ananasþykkni í bland við vatn, nóg af klökum og appelsínusneiðar til skrauts. Í annarri var ég með sódavatn með lime og sítrónusneiðar til skrauts og í þeirri þriðju var ég með sódavatn með lime í bland við Ribena-þykkni og fersk jarðarber til skrauts.

Ég hef lengi verið að nota stóra krukku með krana fyrir svipaða drykki en langaði að prófa eitthvað nýtt og fann þessar karöflur í Snúrunni og hafa þær nú verið notaðar í hverju einasta matarboði það sem af er sumri og held ég ekkert lát verði á því. Við höfum sett í hana gos, vatn, sódavatn og líka stóran skammt af boozt-i þegar við vorum með brunch um daginn, þannig gat hver og einn skammtað sér að vild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert