Steiktur lax með rabarbara og beðum

feastingathome.com

Þessi réttur er eins sumarlegur og þeir gerast. Ferskt grænmeti í bland við lax er fyrirtakssamsetning sem engan ætti að svíkja.

Nú þegar rabarbarinn er óðum að stækka er tilvalið að nýta hann í eldamennsku eins og kostur er. Þótt flestir kjósi að sjóða úr honum sultu er hann líka hreinasta afbragð í eldamennsku eins og þið munið komast að ef þið prófið þessa uppskrift.

Beður kunna að hljóma ókunnuglega í eyrum margra en það er íslenska orðið á chard (l. beta vulgaris). Um er að ræða stilkana sem vaxa upp úr rauðrófum og bragðast þeir alveg hreint dásamlega. 

feastingathome.com

Steiktur lax með rabarbara og beðum

  • 2 vorlaukar
  • 2 x 25 sm stilkar af rabarbara
  • 2 msk. ólífuolía
  • 2 msk. hlynsíróp
  • 2 msk. sherry (eða 1 msk. balsamik-edik)
  • salt og pipar eftir smekk
  • 8 timían-greinar

Beður

  • 1 búnt af beðum, laufin söxuð og stilkarnir skornir í þunnar sneiðar. Aðskiljið.
  • 1 msk. ólífuolía
  • 4 stórir hvítlauskgeirar, gróft skornir
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 tsk. sítrónubörkur
  • 1 sítróna

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 160 gráður.
  2. Skerið vorlaukinn í þunna báta, á lengdina. Skerið rabarbarann til helminga á lengdina og síðan í 10 sm bita.
  3. Takið ofnþolna pönnu og hitið olíuna upp í miðlungsháan hita. Steikið vorlaukinn í 3-4 mínútur eða þar til hann er farinn að mýkjast upp og ilma vel. Bætið rabarbaranum við og steikið hann í mínútu eða svo. 
  4. Setjið vorlaukinn og rabarbarann til hliðanna og setjið laxinn í miðjuna. 
  5. Kryddið laxinn og rabarbarann með salti og pipar. Hellið hlynsírópinu yfir rabarbarann. Notið ekki minna af sírópi en kveðið er á um í uppskriftinni. Það mætti heldur vera meira ef eitthvað er. Setjið sherry eða balsamik-edik yfir rabarbarann. Setjið helminginn af timíaninu yfir og geymið hinn helminginn þar til þið berið réttinn fram. Setjið í ofninn í 15 mínútur. Athugið með laxinn eftir 10 mínútur og takið af pönnunni ef þurfa þykir. Veltur dáldið á þykkt fiskbitans. Rabarbarinn á að vera mjúkur þegar hann er tekinn út úr ofninum. 
  6. Á annarri pönnu skulið þið steikja hvítlaukinn þar til hann er orðinn gullinbrúnn eða í um tvær mínútur. Setjið beðustilkana á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur. Setjið síðan beðulaufin á pönnuna og kryddið með salti, pipar, sítrónusafa og örlítilli kreistu af sítrónusafa. Leggið til hliðar. 
  7. Berið fram á einum diski, þ.e. laxabitann, rabarbara og vorlaukinn og síðan beðublönduna. 
  8. Notið soðið af laxapönnunni og hellið yfir fiskinn á disknum og skreytið loks með afganginum að timíaninu. 
  9. Njótið vel. 
feastingathome.com
feastingathome.com
feastingathome.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert