Það eru fáir flinkari en Albert Eiríksson þegar kemur að því að magna galdur í eldhúsinu. Að þessu sinni er hann á austurlenskum nótum sem er einstaklega viðeigandi eins og tíðin er þessi dægrin.
Sjálfur segir Albert að rétturinn sé léttur og frískandi grænmetisréttur sem er bæði einfaldur og fljótlegur. Tómatarnir eru afhýddir með því að láta þá heila í sjóðandi vatn í nokkrar mínútur, síðan er vatninu hellt af og þá er auðvelt að flysja. Það er til vegan-fiskisósa, ef hún er notuð er rétturinn algjörlega vegan. Gott að hafa í huga að fiskisósa og sojasósa eru mjög saltar.
Hitið olíuna á pönnu og mýkið karrýið í smá stund. Bætið við kókosmjólk, tómötum, ananas, fiskisósu, sykri, lime-safa og látið sjóða í nokkrar mín. Pressið mesta safann úr tófúinu og skerið það niður í bita og bætið við. Slökkvið undir og látið bíða í nokkrar mínútur þangað til tófúið er orðið heitt í gegn. Saxið basil gróft og stráið yfir. Berið fram með hrísgrjónum.