Kartöflur samhentra hjóna bestar

Sölufélag garðyrkjumanna fagnaði í gær nýrri uppskeru af íslenskum kartöflum í tilefni þess að verið er að dreifa henni í verslanir á höfuðborgarsvæðinu þessa daganna. Uppskeruhátíðin fór fram í kartöflugeymslunum við Ártúnsholt.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir staðsetninguna hafa verið valda með tilliti til sögu hússins. Frá 1946 til 2003, eða í 57 ár, var húsið í hlutverki kartöflugeymslu. Kristinn Brynjólfsson arkitekt er eigandi hússins. Hann segir að unnið hafi verið að endurbótum á húsinu og áformað sé að opna þar veitingastað og hönnunar- og listasmiðjur á næstu mánuðum.

Hægvaxandi kartöflur betri

Í Sölufélagi garðyrkjumanna eru 60 til 70 ræktendur, að sögn Gunnlaugs framkvæmdastjóra. Hann segir að eftir að farið var að merkja á síðasta ári hvaðan kartöflurnar koma þá leggi bændur sig meira fram.

„Bestu kartöflurnar eru hjá samheldnum hjónum, með eðlilegum undantekningum. Það er ekki síður konan sem hefur auga fyrir gæðamálunum,“ segir Gunnlaugur. Hann reiknar með að uppskeruhátíðin verði haldin árlega þegar kartöflur berast í verslanir á Reykjavíkursvæðinu. „Hver veit nema almenningur taki næst þátt í gleðinni,“ segir Gunnlaugur og bætir við að þó sumarið hafi verið kalt komi það ekki að sök fyrir kartöfluuppskeruna. „Venjulega eru fyrstu kartöflurnar teknar upp 10. til 15. júlí. Þegar kalt er vaxa þær hægt og þá eru gæðin meiri.“

Kristín Lind Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir íslenskar kartöflur ræktaðar í hreinum og ferskum jarðvegi þar sem ekki sé notað skordýraeitur. „Kartöflurnar eru ferskar þar sem ekki þarf að flytja þær um langan veg,“ segir Kristín Lind . Undir þetta tekur Knútur Rafn Ármann, stjórnarformaður Sölufélagsins og garðyrkjubóndi í Friðheimum. „Mér finnst mikilvægt að sem ábyrgir jarðarbúar getum við ræktað garðinn hjá okkur í stað þess að flytja matvæli langar vegalengdir með tilheyrandi djúpu kolefnisspori og mengun. Kartöflur eru gott dæmi.“

Ylfa Helgadóttir og Georg Arnar Halldórsson frá íslenska kokkalandsliðinu reiddu fram girnilega kartöflurétti á uppskeruhátíðinni. Þau eru sammála um að það sé eitthvað eldgamalt og rómantískt við kartöflur. „Nýuppteknar með salti og smjöri eru þær í sinni bestu mynd.“

Ylfa Helgadóttir og Georg Arnar Halldórsson landsliðskokkar reiddu fram girnilega …
Ylfa Helgadóttir og Georg Arnar Halldórsson landsliðskokkar reiddu fram girnilega kartöflurétti. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Uppskeruhátíðiðn fór fram í kartöflugeymslunni í Ártúnsbrekkunni.
Uppskeruhátíðiðn fór fram í kartöflugeymslunni í Ártúnsbrekkunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Gestir voru ánægðir með matinn en hér má meðal annars …
Gestir voru ánægðir með matinn en hér má meðal annars sjá Albert Eiríksson matarbloggara fyrir miðju. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert