Uppáhaldslambahakksréttur Sirrýar

Þessi lambahakkréttur er í miklu uppáhaldi hjá Sirrý.
Þessi lambahakkréttur er í miklu uppáhaldi hjá Sirrý. mbl.is/

Eftir stóru lambahakksumræðuna fannst okkur tilvalið að koma með eina slíka uppskrift. Þessi er frá Sigríði Björk Bragadóttur, fyrrverandi ritstjóra Gestgjafans og eiganda Salt eldhús. Uppskriftin er í miklu uppáhaldi á hennar heimili. 

Hér er einn mjög vinsæll lambakjötsréttur frá Suður-Afríku. Uppruna hans má sennilega rekja til þess tíma þegar nýlendukaupmenn höfðu viðkomu í Cape Town því nafnið á réttinum og kryddið kemur úr Indónesíu. Hvert heimili í S-Afríku á sína útgáfu af þessum rétti á sama hátt og við eigum af kjötsúpunni okkar. Samsetningin er óvenjuleg, epli, rúsínur og lambahakk en þetta smellur allt saman í óvenjulegan og mildan rétt,“ segir Sirrý eins og hún er alltaf kölluð.

Bobotie ( réttur frá Suður-Afríku)
fyrir 4-6 

2 laukar
50 g smjör
2-3 msk. olía
2 stór græn epli (t.d. Granny Smith)
70 g rúsínur
2 msk. karrý
800 g lambahakk
2 dl lambasoð ( vatn og ½ lambakraftsteningur)
salt og pipar
3 msk. mangó chutney
2 msk. sítrónusafi
75 g afhýddar möndlur saxaðar
2 sneiðar brauð
3 egg
3 dl matreiðslurjómi ( má líka nota mjólk)

Saxið laukinn og steikið við hægan hita í blöndu af smjöri og olíu á pönnu þar til hann fer að verða glær. Skrælið eplin, skerið þau í teninga, bætið þeim út í laukinn og steikið áfram. Bætið rúsínum og karrý út í og látið malla saman smá stund.

Takið helminginn af laukblöndunni frá og geymið. Bætið lambahakki á pönnuna í laukinn sem eftir er og brúnið aðeins áfram.Hellið lambasoði út á pönnuna, smakkið til með salti, pipar, mangó chutney og sítrónusafa. Bætið helmingnum af möndlunum útí. Látið malla við hægan hita meðan þið útbúið eggjabrauðblönduna.

Skerið skorpuna utan af brauðinu og brauðið í teninga. Þeytið eggin saman í skál, bætið matreiðslurjóma út í ásamt brauðinu.

Stillið ofninn á 200°C  Smyrjið ofnfast fat með olíu. Setjið lambakjötsblönduna til skiptis með laukblöndunni í formið, hellið eggjabrauðblöndunni ofan á í lokin.  

Stráið afgangnum af möndlunum ofan á. Bakið þetta í 40 – 50 mín.

Berið fram með mangó chutney, góðu brauði og fínt söxuðu jöklasalati með mildri dressingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert