Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson, bauð á dögunum til stórveislu í tilefni af fertugsafmæli eiginkonu sinnar, Snædísar Evu. Á gestalitanum voru 80 manns og að sjálfsögðu sá Ragnar um veitingarnar. Hér gefur að líta hans eigin frásögn af gangi mála:
„Þetta er auðvitað ekki klassísk uppskrift - en það eru auðvitað til margir útgáfur af þessari paellu. Oftast er þó notuð chorizo-pylsa sem ég fann ekki - og notaði því beikon í stað þess.
Tvær dúndur paellur - Paella Islandia og Paella Valenciana - og foccacia í tilefni fertugsafmælis ástarinnar minnar.“
Paella Islandia
Fyrir 50
- 5 kg hrísgrjón (ég notaði sushi grjón sem ég hafði skolað vel og vandlega)
- 4 lambaframpartar
- 4 msk. yfir holt og heiðar (kryddblanda merkt mér)
- 1,5 kg rauðvínssalami frá SS
- 1,5 kg sveppir
- 8 paprikur (blandaðir litir)
- 5 sellerísstangir
- 8 gulrætur
- 2 rauðir laukar
- 1 heill hvítlaukur
- 8 l kjúklingasoð
- 2 l lambasoð
- 250 g smjör
- 100 ml jómfrúarolía
- salt og pipar
- 3-4 handfyllir blandaðar kryddjurtir (basil, steinselja)
Paella Valenciana
Fyrir 40
- 4 kg hrísgrjón
- 1 kg beikon
- 3 kg kjúklingur (leggir og læri)
- 8 l kjúklingasoð
- 8 paprikur (blandaðir litir)
- 3 púrrulaukar
- 5 sellerísstangir
- 8 gulrætur
- 2 rauðir laukar
- 1 heill hvítlaukur
- 1 g saffran
- 1,5 kg kræklingur
- 1,5 kg risarækjur
- 6 sítrónur
- salt og pipar
Aðferð:
- Ég þurfti að fá liðsauka í allan skurðinn - laukur, sellerí, gulrætur og hvítlaukur, allt hakkað niður og sett í skálar.
- Ég ákvað að nota rauðvínssalami í „íslensku“ paelluna - þetta er bragðmikil pylsa með rauðvínskeim sem er ljúffeng bara niðurskorin - en er líka fantagóð steikt.
- Ég pantaði fjóra framparta en hann er eiginlega minn uppáhaldsbiti - mér finnst hann alveg dásamlegur langeldaður - kjötið er vel fituríkt og það tryggir líka að lambabragðið skili sér.
- Svo var bara að skerpa hnífana og bretta upp ermarnar og byrja að skera kjötið frá beinunum. Og það er miklu auðveldara en margir myndu kannski halda. Bara að elta beinið með beittum hnífsoddinum.
- Svo þarf að reyna að hreinsa kjötið af beinunum eins og vel og maður getur. Beinin er gott að geyma til að nota t.d. í lambasoð. Eða bara til að velta upp úr smá olíu, salta og pipra og rista í blússheitum ofni þangað til að það hefur brúnast. Og svo er bara að naga beinið!
- Það næst fullt af kjöti af einum framparti - bara að halda áfram þangað til allir fjórir eru komnir.
- Fyrir íslensku paelluna bræddi ég smjör á pönnunni og svo karmellisseruðum við sveppina í um 20 mínútur. Gætið þess að salta og pipra. Síðan voru þeir settir til hliðar.
- Næst var að krydda lambið með salti og pipar og svo þessari ljúffengu blöndu sem ég, Ólöf og Omry hjá Krydd- og tehúsinu erum að gera saman.
- Næst er að brúna lambið að utan - og setja svo til hliðar.
- Fyrir Paella Valenciana byrjaði ég á því að steikja beikon í nóg af jómfrúarolíu og setja svo til hliðar.
- Næst var að brúna kjúklinginn að utan vandlega. Auðvitað þarf að salta hann og pipra.
- Rétt fyrir klukkan fjögur barst mér liðsauki. Kunningi minn Þorkell Harðarson lánaði mér paellupönnuna sína sem er 90 cm í þvermál - það er sko hægt að elda á henni!
- Fyrir þá íslensku byrjaði ég á því að brúna niðurskorna pylsuna vandlega.
- Þá var að steikja allt grænmetið - fyrst laukinn, hvítlauk, sellerí, gulrætur og púrru þangað til það var mjúkt og ilmandi.
- Næst voru það paprikurnar - það er bara eitthvað sem gleður mann við að sjá alla þessa liti.
- Gerði það sama á stóru pönnunni, nema hvað ég sleppti púrrunni.
Svo ýtti ég öllu grænmetinu út í jaðrana. Setti svo hrísgrjónin á pönnuna.
- Og svo er bara að blanda.
- Blanda svo lambinu, sveppunum og pylsunum saman við íslensku paelluna.
- Fyrir þá spænsku setti ég kjúklinginn, beikonið og svo saffranið saman við auk 8 lítra af kjúklingasoði.
- Stóra pannan tók vandræðalaust við 10 l af soði.
- Í þá spænsku bætti ég svo kræklingi sem ég fékk ferskan. Og svo risarækjum og sítrónum.
- Því næst bætti ég við fullt af ferskum smátt söxuðum kryddjurtum - basil, steinselju og fersku oregano.
Foccacia brauðið heppnaðist vel.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Foccacia-brauð
- 700 g hveiti
- 400 ml vatn
- 12 g instantger
- 30 g salt
- 2 msk. hunang
- 2 msk. jómfrúarolía
- handfylli ferskir kirsuberjatómatar
- nokkrir sprotar af rósmaríni
- 4-5 msk. hvítlauksolía
- salt og pipar
Aðferð:
- Setjið öll þurrefni í skál og blandið saman.
- Fáið svo ákveðna fimm ára stúlku til að hella vatni og olíu saman við. Hnoðið saman í 10 mínútur og færið svo yfir í aðra skál, smurða með olíu og hyljið með viskastykki og látið hefast í tvær til þrjár klukkustundir.
- Smyrjið eldfast mót með jómfrúarolíu (eða hvítlauksolíu) og fletjið svo deigið út vandlega.
- Penslið deigið með hvítlauksolíu, búið til svona litla bolla í deigið með fingrunum þar sem hvítlauksolían getur safnast saman, troðið ferskum kirsuberjatómötum í sum götin og dreifið svo rósmaríngreinum yfir. Saltið og piprið.
- Látið brauðið svo hefast aftur í 45 mínútur. Bakið svo í 200 gráða heitum ofni í 25 mínútur.