Kjúklingur með salsa og hvítlauks- og trufflukartöflumús

Ágústa eigandi Hreyfingar er listakokkur.
Ágústa eigandi Hreyfingar er listakokkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilsudrottningin Ágústa Johnson er mikill meistarakokkur en auk þessað reka hina vinsælu líkamsrækt Hreyfingu hefur Ágústa gefið út uppskriftarbækur. Matarvefurinn fékk hjá henni uppskrift að hollri helgarmáltíð sem tekur ekki of langan tíma en skilur eftir mettan og kátan kropp.

Kjúklingur með salsa og hvítlauks- og trufflukartöflumús
Kjúklingur með salsa og hvítlauks- og trufflukartöflumús mbl.is/Kristinn Magnússon

Heill kjúklingur

  • 1 sítróna
  • sjávarsalt
  • svartur pipar
  • grillnudd Læknisins í eldhúsinu fyrir kjúkling og svínakjöt


Skolið kjúklinginn og þerrið með pappír og kryddið hann vel að innan sem utan. Munar miklu því þá verður kjötið svo mjúkt og gott, sítrónusafinn sprautast inn í kjötið við eldunina.Þvoið einnig sítrónu og skerið í báða enda.


Sítrónan er svo stungin með beittum hníf víðsvegar áður en henni er stungið inn í kjúklinginn.

Setjið í steikarpott m. loki og inn í 230°C heitan ofn í 1 klst. og 15 mín.Þá er lokið tekið af, hitinn lækkaður í 210°C og eldað í u.þ.b. 10 mín. í viðbót til að brúna í lokin.

Jamie-súpersalsa(við elskum þetta!)

2 krukkur grillaðar paprikur í olíu (ég nota frá Jamie Oliver, fæst í Krónunni) teknar úr olíunni og saxaðar smátt
½ rauðlaukur, smátt saxaður
rauður chilipipar – 2-4 (eftir smekk) saxaðir smátt (ég nota mismikið, en oft fjóra)
1 lítið hvítlauksrif, smátt saxað
8 msk. góð ólífuolía
1 msk. rauðvínsedik
1 góð lúka steinselja, smátt söxuð
1 góð lúka basilika, smátt söxuð
salt og nýmalaður svartur pipar

Setjið allt í skál og blandið vel saman, gott að láta standa í 1-2 klst., verður bragðbetra.

Kartöflumús

500 g nýjar kartöflur
hvítlaukur
smjör
hvítur pipar
truffluolía
salt
mjólk

Sjóðið nýjar kartöflur með hýði og setjið tvö hvítlauksrif með út í vatnið.Þegar kartöflurnar eru soðnar stappið þá (ég hef hýðið með, næringarríkt) með smjörklípu, mjólk, salti og hvítum pipar þar til músin er orðin mjúk og fín. Að lokum skvetti ég smá yfir af góðri truffluolíu! Nammi!

Sósa

1 laukur
2 msk. smjör
ferskt krydd
200 ml vatn
kjúklingateningur
svartur pipar
100 ml rjómi
50 ml rauðvín
1 tsk. hlynsíróp

Ég geri einfalda sósu með þessu, steiki lauk í potti upp úr smjöri og hendi með kryddjurtum sem ég á, t.d. basil, steinselju eða timían.

Set svo vatn og kjúklingatening og kem upp suðu.
Þykki með sósujafnara og smakka til með því sem til fellur, e.t.v smá hlynsírópi, rauðvínsskvettu og rjóma og svörtum pipar. Og að lokum skvettu af soðinu sem verður til í steikarpottinum.

Gufusjóðið brokkólí eða berið fram með fersku salati.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka