Eitt af því sem mér hefur þótt skemmtilegast að gera þegar enginn sér til er að horfa á ameríska kökuþætti þar sem þátttakendur keppast við að skapa kökuskúlptúra sem sprengja flesta skala. Í gegnum tíðina hef ég reynt að leika þetta eftir en oftast með arfaslöppum árangri þrátt fyrir mikla viðleitni. Smjörkrem hefur iðulega skilið hjá mér (sem á ekki að vera hægt) og án þess að orðlengja neitt frekar um það þá eru þær oftast frekar misheppnaðar.
Sjá frétt mbl.is: Hamfarakaka sem setti Vesturbæinn á hliðina
Í ljósi þessa alls er ekkert skrítið þótt ég hafi fylgst með Berglindi Hreiðarsdóttur inn á gotteri.is af mikilli aðdáun og birt reglulega fréttir af afrekum hennar enda er aðdáun mín afskaplega einlæg.
Þegar hún bauð mér að koma á námskeið til sín kom ekki annað til greina en að mæta og á fjórum klukkustundum síðastliðinn laugardag breyttist líf mitt til frambúðar. Þar voru samankomnar konur (enginn kall!) sem allar útskrifuðust með meirapróf í kökufræðum sem við munum nýta okkur óspart í framtíðinni.
Þegar komið var að því að skreyta átti ég dáldið erfitt með mig. Ég ákvað samt að fara í brúnleita og gyllta tóna því þeir minna á súkkulaði og eru afskaplega listaukandi. Mín kaka þurfti á því að halda þar sem ætlunin var að mæta með hana í matarboð daginn eftir. Engu að síður var fólkið mitt svo brennt af fyrri bökstrum mínum að dóttir mín tilkynnti mér (eftir að hafa starað á kökuna í forundran og spurt hvort ég hefði í alvörunni bakað hana) að kakan væri voða fín en hún hefði ekki list á henni. Blessað barnið var að vonum hvekkt eftir laxableiku póní-kökuna sem ég bakaði handa henni í júlí en viti menn... hún smakkaði að lokum og átti ekki orð yfir hversu ljúffeng hún var.
Heilt yfir litið er ég að elska kökuskreytingaræðið sem virðist ríkja og mæli hiklaust með þessu frábæra námskeiði hjá Berglindi sem er mögnuð. Og til vina og ættingja segi ég: Biðjið - og ég mun baka!