Svana Lovísa Kristjánsdóttir, hönnuður og bloggari á trendnet.is, bauð vinkonum sínum í saumaklúbb í síðustu viku þar sem huggulegar veitingar voru á boðstólnum. Auðveldur og ljúfur kjúklingaréttur, ítalskt salat og heimabakað lúxusbrauð sló í gegn.
„Innblásin af Svindlað í saumaklúbb hér á Mbl.is þá nennti ég ekki að græja flókinn eftirrétt. Keypti því sænska kladdköku (Krónan t.d.) og skreytti með jarðarberjum – ég held að stelpurnar haldi enn þá að ég hafi bakað hana,“ segir Svana en það má vel svindla dálítið með.
Kjúklingaréttur Birnu Antons
(Uppskriftin kemur upphaflega frá Valgerði Grétu Guðmundsdóttur í Eldhúsinu hennar Völlu)
1 kjúklingur eða bringur (eldaðar) skornar í strimla (um 600 g)
150 g spínat
100 g beikon í bitum
70 g döðlur smátt skornar
4 hvítlauksrif
1 msk. Oregano
3 dl vatn
2 dl matreiðslurjómi
3 msk. rjómaostur
1 kjúklingateningur
1 grænmetisteningur
Rifinn ostur eftir smekk
Beikon og hvítlaukur steikt á pönnu (ég sleppi beikoninu), síðan er döðlum, vatni, teningum og kryddi bætt við og látið malla.
Spínat sett í eldfast mót, kjúklingur sem búið er að elda fer ofan á. Rjómi + rjómaostur brætt saman og blandað við pönnuna. Öllu hellt yfir kjúklinginn og að lokum er ostur settur yfir og bakað í ofni á 180 gráðum í 20 mínútur.
Lúxusbrauð – (uppskrift frá samstarfskonu mömmu)
600 gr. hveiti
1 bréf af þurrgeri
2 tsk. salt
500 ml. volgt vatn
Fetaostur í krukku
Sólþurrkaðir tómatar
Salt og gara masala til að toppa með.
Öllu hrært saman, ekki hnoða því deigið á að vera blautt. Best er að hræra deigið kvöldið áður og passa að hafa skálina dálítið rúma. Setja skálina svo í ískáp í a.m.k. 8 klst.
Þegar deigið hefur hefast er það sett á bökunarpappír og rúmlega hálfri krukku af fetaosti bætt við ásamt u.þ.b. 5 sneiðum af sólþurrkuðum tómötum (best að kaupa þá sem eru niðursneiddir). Fetaosturinn og tómatarnir eiga að fara inn í deigið og þarf því að loka deiginu utan um. Gott að setja einnig feta ofan á deigið, og að lokum er olíunni af fetaostinum hellt yfir. Á þessu stigi lítur þetta mjög illa út en þá ertu líklega að gera þetta rétt.
Settu svo vel af maldon-salti og smá af gara masala-kryddi ofan á brauðið.
Bakað við 180 gráður í rúmar 45 mín.
Santorini salat
Engin hlutföll heldur eftir smekk:)
Paprika
Tómatar
Agúrka
Rauðlaukur
Fetakubbur
Oregano
Ólívuolía eða jafnvel góð hvítlauksolía
Allt skorið í bita og blandað saman og olíunni skvett yfir.