Tvær bugaðar mæður hittust í dögurði (fáránlegt orð) til að ræða erfitt hegðunarmynstur barna sinna. Það verður að viðurkennast að þær voru með einbeittan brotavilja og pöntuðu sér mímósur áður en þær heilsuðu hvor annarri. Sumir dagar eru þannig.
Mímósurnar voru vægast sagt stórkostlegar svo skyndilega voru hegðunarvandamálin bara áhugaverð verkefni. Hin klassíska mímósa er gerð úr freyðivíni og appelsínusafa en í seinni tíð hefur rauðrófumímósa og epla- og engifermímósa notið mikilla vinsælda. Það er þó óumdeilanlegt að af öllum þeim mímósum sem við vinkonurnar höfum smakkað var þessi langbest og alveg hreint guðdómleg. Uppskriftin er frá Hverfisgötu 12 og ekki skemma skemmtilega gamaldags kampavínsglösin fyrir.
Bláberjamímósa Hverfisgötu 12
1/2 cl (5 ml) góð heimagerð bláberjasulta
1/2 cl (5 ml) sítrónusafi
1/2 cl (5 ml) bláberjalíkjör
Freyðivín eða kampavín
Öllu hrært saman nema víninu og hellt í kampavínsglas. Fyllt upp með freyðivíni eða kampavíni. Varist að velja of sætt freyðivín.