Ég fæ oft hugmyndir að samsetningum við undarlegustu andstæður og fæ þá viðkomandi hráefni á heilann þar til tilraunin hefur verið framkvæmd. Nú er það bók sem kveikti hugmynd að samloku. Í bókinni, Litla bókabúðin í Hálöndunum, sat söguhetjan á krá í Skotlandi og lýsti þar samloku með osti sem borin var fram með súrsuðu grænmeti og bjórkollu. Ég fékk þá á heilann að jólabjór, súrar gúrkur og sinnep ásamt Cathedral City mature cheddarost sem ég dýrka frá námsárum mínum í Bretlandi, væri samsetning sem ég yrði að reyna.
Útkoman var jólabingó fyrir bragðlaukana þar sem allir vinna!
Jólabjórlokan - fyrir tvo
4 sneiðar gróft brauð
góður cheddar ostur, t.d. Cathedral City (fæst víða)
Dijon-sinnep
8 sneiðar, súr gúrka
smjör til steikingar
pipar
Smyrjið sinnepi öðrum megin á sneiðina en setjið vel af ost hinum megin.
Setjið 3-4 súrar gúrkusneiðar ofan á sinepið og smá nýmalaðan pipar.
Steikið samlokuna upp úr smjöri á pönnu uns hún er tekin að gyllast og osturinn orðinn heitur.
Athugið að þessi ostur er nokkuð lengi að bráðna en það dugar vel að hann sé heitur og tekinn að mýkjast.
Svo má vel bjóða upp á sinn uppáhalds jólabjór með gúmmelaðinu!