Vinsælasta uppskrift Sigrúnar

Bananabrauð er ákaflega notalegt að eiga í kaffitímanum, það má …
Bananabrauð er ákaflega notalegt að eiga í kaffitímanum, það má einnig frysta og hentar svo vel í nesti. mbl.is/Cafesigrun.is

Vefsíðan cafesigrún.is er ein fyrsta matarbloggsíðan hérlendis sem leggur áherslu á hollari mat og eftirrétti. Sigrún Þorsteinsdóttir, höfundur uppskriftanna, er klínískur barnasálfræðingur með MSc í heilsusálfræði. Hún er móðir tveggja ungra barna og hefur kappkostað að gefa þeim sem hollasta fæðu og er snillingur í að finna leiðir til að gera hefðbundnar uppskriftir hollari. 

Matarvefurinn heyrði í Sigrúnu en okkur lék forvitni á að vita hvaða uppskriftir væru þær mest lesnu frá upphafi á vef hennar. Þær vinsælustu reyndust vera kókoskúlur með ekta súkkulaði og þetta dásamlegt bananabrauð en hvort tveggja hentar svo einkar vel í skammdeginu. 

Bananabrauð Sigrúnar

„Þetta er afskaplega einföld og fljótleg uppskrift að bananabrauði. Mikilvægt er að nota vel þroskaða banana, helst þannig að þeir séu orðnir svartir og það er ekkert sem betra er að nota svoleiðis banana í, heldur en svona brauð. Ég man ekki alveg hvaðan þessi uppskrift er, hún gæti verið blanda úr mörgum. Ég man bara að það áttu að vera 100 g af smjöri en ég skipti því nú út strax fyrir 1 aukabanana og 1 msk. af kókosolíu. Það er svaðalega gott að setja svolítið af söxuðum valhnetum út í deigið og eykur það mikið á hollustuna enda innihalda valhnetur holla fitu.“

Athugið að þið þurfið brauðform sem tekur a.m.k. 1 kg fyrir þessa uppskrift.

Innihald

  • 70 g rapadura-hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 10 dropar stevia (eða 20 g hrásykur til viðbótar)
  • 4 bananar, mikið þroskaðir 
  • 2 egg
  • 2 msk. kókosolía
  • 200 g spelti
  • 2 tsk. vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk. salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 25 g haframjöl
  • 25 g haframjöl til að strá yfir

Aðferð

  1. Þeytið eggin lauslega og bætið hrásykrinum saman við í smáum skömmtum (nokkrar matskeiðar í einu eða svo).
  2. Merjið bananana með gaffli og hrærið saman við eggin ásamt kókosolíunni og stevia-dropunum.
  3. Sigtið saman í stóra skál; spelti, lyftidufti og salt og hrærið vel. Bætið 25 g af haframjöli út í.
  4. Hellið bananablöndunni út í stóru skálina og hrærið mjög varlega (rétt veltið deiginu til þangað til það blandast saman). Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
  5. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu í formið. Gætið þess að það fari vel í öll horn.
  6. Dreifið afganginum af haframjölinu yfir bananabrauðið.
  7. Bakið í 180°C í 40-45 mínútur.
  8. Brauðið verður mjög klessulegt þegar það er nýkomið úr ofninum. Látið brauðið kólna í a.m.k. 30 mínútur áður en þið skerið það í sneiðar.

Gott að hafa í huga

  • Það er mjög gott að setja um 2 tsk. af kanil í uppskriftina, sérstaklega fyrir jólin!
  • Gott er að bæta við söxuðum hnetum í uppskriftina (t.d. pecanhnetum eða valhnetum).
  • Það er mjög gott að frysta bananabrauðið og hita upp síðar. Það er líka sniðugt að skera brauðið í sneiðar og pakka inn þannig. Þannig getur maður hitað eina sneið í einu og tekið með sér í nestið!
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Í staðinn fyrir 5 banana má nota 4 banana + 125 ml lífrænt framleiddan barnamat.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Sigrún Þorsteinsdóttir segir að börnin læri það sem fyrir þeim …
Sigrún Þorsteinsdóttir segir að börnin læri það sem fyrir þeim er haft og leggur því áherslu á hollt mataræði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert