Jólamorgnarnir verða mun notalegri þegar þetta gúmmelaði er til á heimilinu. Ekki er verra að setja granólað í fallega krukku og gefa sem jólagjöf eða lauma að gestgjafanum í næsta matarboði.
Innihaldsefni
2 stórir og vel þroskaðir bananar
8 msk. kókosolía eða avocado-olía
1 msk. vanilluessens
1/2 tsk. salt, dregur fram sætuna úr banönunum
200 gr. tröllahafrar
100 gr. kókosflögur
100 gr. saxaðar hnetur, t.d. pekan- eða valhnetur
2 msk. chia-fræ
4 msk. hörfræ
100 g þurrkuð epli, söxuð
50 g söxuð trönuber
2 msk. kanill
Stappið bananana vel og hrærið bræddri kókosolíu, kanil og vanilluessens saman við (þetta er hægt að gera í blandara). Setjið blönduna til hliðar.
Blandið öllum hinum innihaldsefnunum saman í skál.
Hellið bananablöndunni saman við og blandið vel saman með höndunum. Blandan á að loða létt saman. Ef hún loðir nánast ekkert saman þarf aðeins meiri banana og olíublöndu.
Dreifið blöndunni yfir bökunarpappír á bökunarplötu. Passið að rúsínur eða þurrkaðir ávextir standi ekki upp úr heldur séu þakin blöndunni, annars brenna þau.
Bakið neðarlega í ofninum á 180 gráðum í 25 mínútur eða þar til blandan verður gyllt og stökk (verður enn stökkari við að kólna). Gott er að hræra 2-3 sinnum í blöndunni yfir bökunartímann. Mér finnst best að slökkva svo bara á ofninum og láta granóla kólna yfir nótt.
Ef granólað er ekki nægilega stökkt þarf að baka það lengur!
Kælið og geymið í loftþéttum umbúðum.