Danskar eplaskífur Berglindar

Ekki amalegt að fá sér heitt súkkulaði með eplaskífunum.
Ekki amalegt að fá sér heitt súkkulaði með eplaskífunum. mbl.is/Gunnar Ingi Gíslason
Ef einhver kann að útbúa mat sem er í senn stórkostlegur á bragðið og meinhollur þá er það Berglind Sigmarsdóttir, sem er konan á bak við Heilsurétti fjölskyldunnar og veitingastaðinn GOTT í Vestmannaeyjum.
Við báðum Berglindi að deila með okkur eftirlætisjólagóðgæti og hún smellti í danskar eplaskífur en hún segist fyrst hafa smakkað slíkt góðgæti í aðventuferð í Danaveldi með dóttur sinni.
„Eins og svo oft þegar matur er annarsbvegar, þá var ég ákveðin í að prófa þetta einhvern tímann heima. Fann svo þessa pönnu á antiksölu og fór þá að prófa mig áfram með deig. Í raun er þetta bara svipað og deig í skonsum. Áður fyrr dýfðu Danir eplabitum í deig og steiktu á pönnu en í seinni tíð hefur þetta breyst og ýmislegt annað sett í deigið – jafnvel marsípan,“ segir Berglind.
Hún segir jafnframt að ekkert mál sé að steikja deigið á pönnu og baka sem klatta þar sem ekki allir búi svo vel að eiga pönnu eins og sést á meðfylgjandi mynd.
„Flórsykurinn er svo settur yfir eins og snjór og rauð sultan með gerir þetta svo jólalegt. Ekkert betra eftir góða útiveru í kulda og snjó en að fá sér heitar eplaskífur og heitt súkkulaði með rjóma,“ segir hún. 
Danskar eplaskífur Berglindar
  • 2 egg
  • 2 matsk. hrásykur (eða sú sæta sem þið viljið nota)
  • 3 dl hveiti (ég nota helming fínt spelt og hinn helminginn gróft)
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 3 1/2 dl- 4 dl mjólk
  • Smjör á pönnuna
Aðferð:
  1. Hrærið saman egg og sykur. Mælið hveiti og lyftiduft og hrærið varlega saman við. Í lokin hrærið mjólkinni saman við. Byrja á 3 1/2 dl, ef þið viljið deigið þynnra þá bætið við.
  2. Bræðið smjörklípu á pönnu eða ef þið eruð með svona eplaskífupönnu þá smyrjið hana og hellið deigi á pönnuna. Þegar deigið á yfirborðinu er farið að þykkna og verða stökkt á hliðunum er hægt að snúa við. Passið bara að hafa ekki of mikinn hita.
  3. Berið fram með sultu, ég mæli með sykurlausri hindberjasultu, smá flórsykri og gott er að drekka heitt súkkulaði með. 
Pannan góða sem Berglind fann á antíksölu.
Pannan góða sem Berglind fann á antíksölu. mbl.is/Gunnar Ingi Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert