Sulta er ekki bara sulta! Þetta er sulta. Jesús, Pétur, Jósep og anís hvað þessi sulta er ofboðslega góð. Bæði með ostum, paté eða jólasteikinni. Grenjandi góð og fullkomin sem gjöf!
Uppskriftin er frá Sirrý í Salt eldhús og skal hún hljóta aðdáun út lífið fyrir framlag sitt til matarmenningar minnar.
Fíkjusulta með valhnetum og anís
270 g sykur
3 dl vatn
1 sítróna, safi af henni
400 g þurrkaðar fíkjur, skornar eða klipptar í litla bita
180 g valhnetur, saxaðar og ristaðar í ofni eða á pönnu
1 msk. anísfræ - fást í Krydd og Tehúsinu
Setjið sykur, vatn og sítrónusafa í pott og sjóðið saman á meðalhita í 5 mín, eða þar til það fer að þykkna. Bætið fíkjum út í, hækkið hitann og látið suðuna koma upp, lækkið hitann þegar bullsýður og látið þetta sjóða saman við meðalhita í 5 mín. Takið pottinn af hitanum og blandið valhnetum og anísfræjum saman við fíkjurnar. Hellið í hreinar krukkur og lokið strax.
Geymist í ísskáp í nokkra mánuði. Gott er að láta standa úti á borði smástund áður en borið fram. Gott með ostum, á ristað brauð og ýmislegt annað.