Toblerone-tiramisu sem sameinar fjölskyldur

Girnilegt og gott á hátíðarborðið.
Girnilegt og gott á hátíðarborðið. mbl.is/MS
Sumir eftirréttir eru þess eðlis að þeir eru í senn sérdeilis bragðgóðir auk þeim sem þeim tekst hið vandasama verk að sameina ólíka menningarheima og aldursbil.
Þessi eftirrétur er klárlega einn af þeim. Tíramísú er auðvitað ítalskt og elskað af öllum yfir fermingaraldri. Toblerone er síðan súkkulaði barnanna þannig að ekkert barn mun fúlsa við þessari dásemd. Hafið þó í huga að hann inniheldur áfengi þannig að kannski eiga börn fremur að fá óáfenga útgáfu af þessu lostæti...
Svo má færa sannfærandi rök fyrir því að rétturinn sameini Ítalíu og Sviss... en nóg um það.
Toblerone-tiramisu
  • 3 stk. eggjarauður
  • 1 dl sykur
  • 1 stk. vanillustöng
  • 1 dós íslenskur mascarponeostur (við stofuhita)
  • 2½ dl rjómi
  • 2½ dl sterkt uppáhellt kaffi
  • 2 msk. sykur
  • 2 msk. Amaretto-líkjör (eða annar líkjör, t.d. Grand Marnier eða sérrí)
  • Fingurkökur (Lady fingers)
  • 1 stk. Toblerone-súkkulaði, gróft saxað
  • Hreint kakó

Aðferð:

  1. Skafið fræin innan úr vanillustönginni og setjið í skál.
  2. Bætið eggjarauðum og sykri út í og þeytið vel saman þar til ljóst og létt.
  3. Bætið mascarponeostinum saman við og hrærið þessu vel saman.
  4. Þeytið rjómann í annarri skál og hrærið honum svo saman við mascarponeblönduna með sleikju.
  5. Setjið kaffið í skál ásamt 2 msk. af sykri og líkjör.
  6. Dýfið fingurkökunum í blönduna og leggið í botninn á fati eða glasi.
  7. Dreifið Toblerone yfir og setjið svo ostablönduna þar ofan á.
  8. Gerið tvö svona lög, endið á því að sigta hreint kakó yfir efsta lagið og skreytið aðeins með Toblerone-súkkulaði.

Gott er að láta tiramisu standa í ísskáp í a.m.k. 4 klst. áður en það er borið fram.

Auðveldlega hægt að gera daginn áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert