Við heyrðum í nokkrum stórstjörnum í eldhúsinu til að fá hugmyndir fyrir þá sem enn eiga eftir að kaupa nokkrar gjafir. Þetta fólk veit svo sannarlega um hvað það er að tala!
Ylfa Helgadóttir landsliðskokkur
„Gott handrifjárn (microplane) er rosa góð gjöf. Á mjög fínu verði yfirleitt i kringum 4-5.000 kr. Svo er töfrasproti eða gott stál til að skerpa hnífa líka frábær gjöf ef gjöfin má kosta meira, það er á milli 5.000 og 10.000 kr. Ég hef verið að gauka svona rifjárnum að fjölskyldumeðlimum, svo er stappari líka góð svona „með“-gjöf. Lykilatriði i góðu guacamole er t.d. góður stappari og hann þarf alls ekki að kosta mikið, gætir líklega fengið fínan á 1.500 kr., eða farið alla leið og keypt alvöru WMF á um 5.000 kr.“
Sirrý í Salteldhúsi:
„Góð panna er ómissandi og líka góður hnífur og bretti. Mortel er líka gott að eiga og góðar olíur og vandað edik. Slíkt getur kostað svolítið og gott að fá að gjöf. Ég er nýlega búin að fá mér tortilla-pressu til að gera tortillakökur frá grunni eins og þeir gera í La Poblana á Hlemmi Mathöll. Slík græja er ekki dýr og sniðug gjöf með t.d. bók um mexíkóska matargerð. Járnið fæst í Byggt og búið.“
Viktor Örn Andrésson matreiðslumaður og höfundur Sous-vide-bókarinnar
„Þráðlaus töfrasproti, míkrórifjárn og konfekt frá Hafliða eru skotheldar gjafir.“