Stjörnukokkurinn Jamie Oliver er höfundur þessarar stórkostlegu fiskböku sem er afar vinsæl á hinum ýmsu vefsíðum. Jamie bendir á að það má nota hvaða fisk sem er en hann mælir með að ræða við fisksalann og fá að vita hvað er ferskast hverju sinni og gæti hentað í fiskiböku sem þessa.
„Þessi holla fiskibaka er allvinsæl á heimili okkar. Börnin biðja ítrekað um þennan rétt,“ segir Jamie Oliver á heimasíðu sinni.
Fiskurinn sem börnin hans Jamie elska
1,5 kg kartöflur
4 stór egg (má sleppa)
50 g ósaltað smjör
50 g hveiti
2 lárviðarlauf (helst fersk)
350 ml fiskisoð (kraftur)
350 ml mjólk
50 g cheddar ostur
½ sítróna
1 kúfuð tsk. af ensku sinnepi
Nokkur lauf fersk steinselja (má sleppa)
300 g roðlaus hvítur fiskur (t.d. ýsa, langa eða þorskur)
200 g roðlaus lax
200 g reykt, roðlaus ýsa
200 g spínat
ólífuolía
1 múskathneta til að raspa (fæst í Krydd- og tehúsinu – hægt að nota þurrkað múskat líka en það gefur mun minna bragð)
svartur pipar
Hitið ofninn í 200ºC
Skrælið hráar kartöflurnar og skerið í 2 cm bita. Sjóðið í um 15 mín. eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Sjóðið eggin í 8 mínútur séu þau notuð.
Búið til sósuna á meðan þetta er að sjóða. Bræðið smjörið í þykkbotna potti yfir lágum hita og hrærið hveitinu saman við. Bætið lárviðarlaufunum við og varlega mjólk og fiskisoðinu. Hrærið vel á meðan svo úr verði silkimjúk sósa. Látið suðuna koma upp, lækkið þá hita og látið malla í 10 mínútur svo hún þykkni.
Hrærið sinnepi, rifnum cheddarosti (helmingnum) og sítrónusafa saman við sósuna. Saxið steinseljuna ef hún er notuð og bætið saman við. Kryddið með svörtum pipar og takið pottinn af hellunni.
Skerið fiskinn í bita (sirka 2,5 cm) og gætið að því að hann sé beinlaus. Raðið í 25cm x 30 cm eldfast mót. Dreifið spínatinu yfir og soðnum eggjum í teningum séu þau notuð.
Fjarlægið lárviðarlaufin og látið sósuna kólna örlítið áður en henni er helt yfir fiskinn og spínatið.
Hellið vatninu af kartöflunum og maukið þær með skvettu af ólífuolíu, mjólk og múskati eftir smekk. Setjið músina yfir fiskinn og jafnið hana út í mótið. Rífið restina af cheddarostinum yfir og bakið í ofni í 45 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn, sósan farin að bubbla og hliðarnar farnar að taka gylltan lit.