Nú þegar flestir eru með hugann við hollara mataræði er ekki úr vegi að skella í smá laxapasta að hætti meistaranna. Laxapasta eða laxalinguine sameinar í raun tvo heima: hollustu og lúxus. Við getum fært sannfærandi rök fyrir því að það sé afar snjallt að byrja janúar á einmitt svona mat þannig að líkaminn fái notalega aðlögun að hollustufæðinu eftir dásamlegt desembersukkið.
Laxalinguini meistaranna
- 3 laxaflök
- smjörklípa
- 80 g dill
- 50 g afhýddar möndlur
- 1 hvítlauksgeiri
- 4 msk. ólífuolía
- rifinn börkur af 1 sítrónu
- safi úr 1/2 sítrónu
- 300 g linguine
- salt og pipar
Aðferð:
- Kryddið laxinn og setjið í eldfast mót ásamt smjöri. Bakið í 12-15 mínútur við 180 gráðu hita (fer eftir þykkt flaksins). Takið út úr ofninum, fjarlægið roðið og rífið í sundur með gaffli.
- Blandið saman dilli, möndlum, hvítlauk og ólíufolíu í matvinnsluvél og maukið vel saman. Bætið sítrónuberki og safa við og kryddið.
- Sjóðið linguine samkvæmt leiðbeiningum, síið en geymið 2 msk. af soði. Setjið í skál og blandið maukinu ásamt soðinu saman við og hrærið. Setjið laxinn að síðustu saman við og blandið létt saman. Kryddið með salti og pipar eftir smekk.