Morgungrauturinn hennar Gurrýjar

„Ef þú ert að taka til í mataræðinu árið 2018 …
„Ef þú ert að taka til í mataræðinu árið 2018 þá mæli ég með að þú hugsir fyrir hverja máltíð, er þetta gott fyrir mig? Hvað gerir þetta fyrir mig? Og þannig að taka meðvitaða ákvörðun í hvert skipti sem þú borðar,“ segir Gurrý. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Guðríður Torfadóttir, betur þekkt sem Gurrý ofurþjálfari í Biggest Looser, tekur janúar með trompi og hamast nú við að leggja lokahönd á nýtt æfingakerfi.  

„Ég var að klára að hanna glænýtt æfingakerfi fyrir konur sem vilja komast í geggjað form. Þetta æfingakerfi heitir Hot&Strong og er samblanda af styrk og HIIT-æfingum en HIIT er mikil ákefð í stuttan tíma og eykur gríðarlega þol og brennslu. Hér tek ég allt það besta og blanda því saman. Sjálf vil ég æfa þannig að ég sé í toppformi án þess að þurfa að æfa oft á dag. Þetta kerfi er í sölu á gurry.is og hefjast æfingar í næstu viku,“ segir Gurrý sem einnig er með stærri verkefni í smíðum en hún hætti nýlega sem framkvæmdastjóri Rebook Fitness.

Hvað borðar þú yfirleitt eftir æfingu? „Mér finnst best að æfa seinnipartinn og borða svo kvöldmat eftir æfingu. Sé ekki ástæðu til að borða sérstaklega eftir æfingu, bara halda máltíðunum inni sem eru morgunmatur, hádegismatur, millimál og kvöldmatur.  Þá er hægt að borða þessar máltíðir fljótlega eftir æfinguna. Annars finnst mér gott að fá mér soðið egg og banana.“

Minni tíska og tyggja meira

Spurð um hollræði fyrir þá sem vilja bæta mataræðið svarar Gurrý: „Ekki hlaupa á eftir öllum kúrum eða tískubylgjum því það sem hentar einum þarf ekki endilega að gera það fyrir þig. Best er að borða reglulega og helst alltaf á sama tíma dags. Við erum komin í algjöra vitleysu með mataræðisleiðbeiningar og gerum hlutina of flókna og einblínum á smáatriði sem breyta engu. Lykilatriði er að borða venjulegan mat sem er lítið unninn. Má nefna ávexti, grænmeti, baunir, hreinar mjólkurvörur, kjöt, fisk, egg, hnetur og olíur.  Svo er aldrei hægt að tuða of mikið um það að tyggja matinn sem við borðum, ef þú gerir það ekki þá fer meltingin í rugl og við fáum ekki alla næringuna úr matnum.“

Uppáhaldskaffihús ? „Te og kaffi er núna uppáhalds en þar fæ ég koffínlausan cappuccino en ég hætti að drekka koffín fyrir nokkru síðan. Hljómar fáranlega að panta tvöfaldan koffínlausan cappuccino en ég geri það nú samt.“

Ef þú mættir velja eitt hráefni til að taka með þér á eyðieyju hvað væri það? „Ég myndi taka með mér egg en ég gæti mögulega lifað á þeim án þess að deyja úr leiðindum.“

Ef þið viljið fylgjast með Gurrý á samfélagsmiðlum þá er hún með:

Snapchat: gurry.is
Instagram: gurrytorfa
Fjarþjálfun: gurry.is

Súkkulaði-chiagrautur

3 msk. chiafræ
2 bollar vatn
1 tsk. kanill
1 tsk. kardimommuduft
2 tsk. hreint kakó
Rúsínur
Salt

Ofan á grautinn:
Ávextir eftir smekk
Kókósflögur
Rjómi

Byrja á að leggja chiafræ í bleyti í um 10 mínútur. Magn af vatni er smekksatriði en ég vil hafa minn graut í þynnri kantinum. Blanda svo kryddum, kakó og rúsínum við og hita í örbylgjuofni eða í potti, sjálf nota ég bara örbylgjuofninn. Chiagrautur er svo góður heitur en má líka borða kaldan.

Setja á grautinn þá ávexti sem þú átt en ég notaði hér bláber, rautt epli og peru. Svo smá rjóma yfir en allt er betra með rjóma.

 

Girnilegur morgungrautur.
Girnilegur morgungrautur. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka