Ekkert próteinduft og borða eftir árstíðum

Sandra kennir meðal annars námskeiðið Fínar línur í Hreyfingu.
Sandra kennir meðal annars námskeiðið Fínar línur í Hreyfingu. mbl.is/Hreyfing

Sandra Dögg Árnadóttir sjúkraþjálfari, fyrrverandi landsliðsþjálfari í áhaldafimleikum og fagstjóri hjá Hreyfingu, er hafsjór af hollri þekkingu. Sandra kennir einnig á nýju námskeiði í Hreyfingu um þessar mundir. „Námskeiðið heitir Fínar línur og er krefjandi æfingar með áherslu á miðjuna, kvið- og bakæfingar og hefst á mánudag kl. 14 sem er rólegur og góður tími í stöðinni,“ segir Sandra sem ekki er aðeins vinsæll þjálfari því hún er einnig listakokkur og ku lasagnað hennar vera guðdómlegt. Við á Matarvefnum lögðum því nokkrar spurningar fyrir Söndru og munum deila leyniuppskrift hennar á næstu dögum.

Sandra segir að sér finnist hvað skemmtilegast að elda sushi með fjölskyldunni, hráefnismiklar súpur og gufuofninn sé í miklu uppáhaldi. „Mér finnst yndislegt að nota gufuofninn minn fyrir grænmetið við öll tækifæri því bragðið og áferðin er himneskt. Nota hann næstum daglega fyrir sætar kartöflur, brokkólí, aspas eða rósakál.“

Hvað myndir þú aldrei borða?
„Ég nota ekkert próteinduft né borða próteinstykki, þar sem ég passa að fá nægilega mikið prótein úr fæðunni. Svo forðast ég allan djúpsteiktan mat og er lítið fyrir sósur.“

Sé fólk að reyna að taka upp hollara líferni og mataræði bendir Sandra á að hreint fæði sé lykillinn.

„Minnka sykur og borða eins hreina fæðu og mögulegt er. Það er gott að byrja á að breyta einhverju sem þú getur breytt strax í dag. Setja sér einföld markmið sem raunhæft er að ná og gleðast yfir því. Ekki byrja á því að taka út það sem þér finnst best heldur frekar það sem þú getur verið án. Mikilvægt að hugsa þannig að allar breytingar séu til þess að öðlast betri lífsstíl en ekki átak.“

Hún leggur einnig áherslu á að reyna að borða sem mest eftir árstíðum. „Ég er ekki viss um að margir leiði hugann að þessu því við erum svo góðu vön í vöruframboði þó að það sé ekki alltaf rétti tíminn til að borða tilteknar vörur.

Þegar við fjölskyldan bjuggum í Barcelona fannst okkur svo gaman hvað maturinn í búðum og á veitingastöðum var árstíðabundinn. Það var hreinlega ekki alltaf allt í boði. Ég gat ekki fengið sætar kartöflur allt árið, gat ekki fengið öll ber allan ársins hring, það var sveppatíð, aspastíð o.s.frv.

Réttir dagsins á veitingastöðum voru yfirleitt árstíðabundnir þannig að maður festist ekki í því að panta alltaf það sama. Það var auðvitað hægt að finna allan mat innfluttan en að fara í matabúðina eða markaðinn var ekki alltaf eins og maður var mjög meðvitaður um hvað væri “in season” á hverjum tíma og aðlagaði sig því. Gæðin betri, maturinn betri og hughrifin meiri því það var eftirvænting eftir tilteknum vörum.

Uppáhaldsveitingahús?
„Veitingahúsaflóran hefur stóraukist síðustu árin og það gleður mitt félagslega hjarta. Við fjölskyldan urðum þess heiðurs aðnjótandi að búa í Barcelona fyrir nokkru og þar hittust vinir ekki í heimahúsi heldur á veitingastað. Þó að það tíðkist e.t.v. ekki enn á Íslandi þá er aukin veitingahúsaflóra skref í rétta átt, bæði í verðlagi og öðrum flokkum.

Hversdagslega þykir mér gott að fá mér sushi og þá myndi ég velja Sushibarinn á Suðurlandsbraut eða Sakebarinn á Laugavegi. Á tyllidögum væri það helst Snaps með vinkonunum eða jafnvel veitingahúsið í Marshall-húsinu með eiginmanninum.“

Uppáhaldsléttvín?
Bollinger-kampavín er klassík en yfirleitt læt ég mér nægja Cava sem er Brut Nature (minni sykur) ef hitastigið fer yfir 10 gráður í sólinni. En yfirleitt þykir mér gott að fá mér glas af ljúfu Burgundar-rauðvíni yfir mat eða eftir mat í skammdeginu. Þá sjaldan sem maður lyftir sér upp.“

Ef þú værir forréttur, hvað værir þú?
„Ensalada Caprese eða Buffalo-mozzarella. Í sinni einföldustu mynd samanstendur rétturinn af ferskum mozzarella-osti, tómötum, basilíku og ólífuolíu en það er líka hægt að finna sama rétt sem Burrata en þá hefur mozzarella-osturinn verið sprautaður með rjóma til að auka fyllingu réttarins. Syndsamlega gott.“

Sandra leggur upp úr því að borða eftir árstíðum og …
Sandra leggur upp úr því að borða eftir árstíðum og fá þannig ferskara hráefni. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert