Það eru engir aðrir en KEX-menn sem munu taka við veitingarekstri á Holtinu í stað Gallerí Holt sem Friðgeir Ingi Eiríksson var með.
Að sögn Péturs Marteinssonar, eins eigenda hin nýja veitingastaðar, var uppleggið að hrófla sem minnst við staðnum af virðingu við húsið, staðsetninguna og söguna. Meira hafi verið lagt í að laga það sem fyrir var. Gestir muni ekki taka eftir miklum breytingum á útliti staðarins en þó finna ferska vinda blása um. Staðurinn er klassískur og hluti af sögu þjóðarinnar þannig að engu verði kollvarpað.
Að sögn Ólafs Ágústssonar, framkvæmdastjóra KEX-grúppunnar, er uppleggið að rugga ekki neinum bátum. Byggja eigi á gömlum grunni og nýta það góða sem fyrir er. Ragnar Eiríksson mun flytja sig yfir frá Dill og veða yfirmatreiðslumaður á Holtinu. Hvað matinn varðar segir Ólafur að ekki sé verið að tengja sig við neitt ákveðið landssvæði eða eldhús. „Við verðum með klassískan mat en samt nýstárlegan. Við köllum þetta "comfort fine dining" sem ætti að höfða til allra.“ Mikil áhersla verði þó á góðan fisk og fiskrétti.
Meðal nýjunga er veglegur bar-matseðill þar sem hægt er að grípa léttari mat, allt frá hamborgara upp í ostrur og kampavín.
Ólafur segir jafnframt að stefnt sé að því að kúnninn sem sé til staðar geti áfram haldið sig á Holtinu en jafnframt vilji menn fá inn yngra fólk sem hefur ekki kynnst Holtinu áður. „Ungt fólk sem fer reglulega út að borða, við viljum að þetta verði þeirra heimavöllur og þá ekki síst fólkið í hverfinu.“
Áætluð opnun Holtsins er 28. febrúar.