Gourmet-bollur með dökku súkkulaði og appelsínu

mbl.is/

Í þessum gourmet-bollum er notast við súkkulaðirjóma og dökkt súkkulaði. Appelsínubragðið gefur síðan sérlega skemmtilega áferð og rifinn börkurinn gerir bolluna sérdeilis frúarlega og fína.

Það skal tekið fram að þetta er hugmynd að útfærslu en ekki tilbúin bolla úti í búð. Bakaríin verða þó með frábært úrval um helgina.

Gourmet-bollur með dökku súkkulaði og appelsínu

  • 2,5 dl rjómi
  • 2,5 dl nýmjólk
  • 1 pakki ROYAL-súkkulaðibúðingur
  • Appelsínumarmelaði
  • 70% súkkulaði
  • Mjólk
  • Appelsína

Mjólk og rjóma blandað saman, búðingsduftið þeytt saman við. Látið stífna.

Bræðið 70% súkkulaði í pott við vægan hita og hrærið smá mjólk saman við.

Skerið bolluna í sundur, smyrjið botninn með marmelaðinu, sprautið svo búðingnum ofan á og lokið. Smyrjið svo bræddu súkkulaðinu yfir bolluna og endið á að rífa örlítinn appelsínubörk yfir.

Þegar hluta af mjólkinni er skipt út fyrir rjóma verður búðingurinn enn þá þykkari og með því að skipta þessu alveg til helminga fáum við búðing sem minnir hvað helst á frómas. Við mælum einmitt sérstaklega með að prufa þessa fyllingu líka í tertur og á pönnukökurnar eða vöfflurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert