Hverfisgatan er að verða mekka franskrar sælkeramenningar hér á landi ef eitthvað er að marka þróunina. Á dögununum var kaffihúsið Emilie and the Cool Kids opnað á Hverfisgötu 98.
Árið 2007 stofnaði Emilie Zmaher ásamt vinkonu sinni lítið kaffihús í miðbæ Nice í Suður-Frakklandi. Í andsvari við stórar keðjur eins og t.d. Starbucks vildu þær skapa hlýlega og heimilislega stemningu þar sem bakkelsið væri gert á staðnum daglega. Vegna vinsælda hins 32 fermetra kaffihúss var ákveðið tveimur árum seinna að stækka reksturinn og öðru kaffihúsi bætt við í gamla bænum í Nice. Þriðja kaffihúsið bættist við í Mónakó árið 2013 og það fjórða í Cagnes sur mer 2015.
Sumarið 2017 flutti Emilie til Reykjavíkur með manni og dóttur. Við tóku umbætur á húsnæði á horni Barónsstígs og Hverfisgötu. Í samstarfi við íslenskan meðeiganda sinn opnaði hún svo kaffihús á Hverfisgötu 98 í byrjun desember síðastliðins. Er þetta fyrsta Emilie's-kaffihúsið utan frönsku rívíerunnar.
Hinn íslenski helmingur fyrirtækisins heitir Guðlaug og kynntist þeim hjónum í Nice þar sem hún nam myndlist við listaháskólann Villa Arson. Í kjölfarið kynntust þau Íslandi á annan hátt en hinn hefðbundni túristi fær að gera og urðu ástfangin af landi og þjóð. Guðlaug er myndlistarkona og hefur ávallt unnið samhliða listinni á ýmsum sviðum. Þetta er þó frumraun hennar í kaffihúsarekstri.
Aðspurð segir Guðlaug að mikið sé lagt upp úr stemningunni á kaffihúsinu. „Við viljum að andrúmsloftið sé hlýlegt og öllum opið. Einnig leggjum við mikla áherslu á að sýna umhverfinu og nágrönnum okkar virðingu. Áhersla er lögð á gæði vöru og þjónustu, vinalegheit og brosandi starfsfólk. Allir meðlimir starfsliðsins hafa sín eigin persónulegu áhrif á daglegan rekstur, hvort sem er með tónlistarvali, skreytingum, uppskriftum eða hverju sem er.“
Guðlaug segir að heimagerða bakkelsið sé að slá í gegn hjá gestum. „Má þar nefna kanilsnúðana, nutella-múffurnar og margvíslegu ensku skonsurnar og að sjálfsögðu stóru „smá“kökurnar. Beyglur eru gerðar ferskar eftir pöntun og hefur geitaostsbeyglan, The Goatfather, verið sérstaklega vinsæl.“