Bollur sem sprengja alla skala

mbl.is/Kristinn Magnússon

Í ljósi þess að þess að landsmenn eru í afskaplega uppteknir við að fagna bolludeginum fannst okkur einstaklega viðeigandi að fá snillingana í Omnom til að gefa okkur uppskrift. Við vorum sannfærðar um að við fengjum eitthvað sniðugt og harla óvenjulegt en viðurkennum fúslega að eins og svo oft áður tókst þeim að fara langt fram úr björtustu vonum. Það er Kjartan Gíslason hjá Omnom sem ber ábyrgð á þessum meistarabollum sem eru í senn óður til bolludagsins og valentínusardagsins sem er handan við hornið.

„Það vill svo skemmtilega til að Valentínusardagur og Bolludagur eru um svipað leyti í ár og fannst mér tilvalið að setja þetta saman í sköpunargleðinni,” sagði Kjartan um leið og hann hnýtti á sig svuntuna yfir kokkajakkann. „Einnig erum við í Omnom að vinna að annarri hugmynd byggða á þessu þema og því gróf ég upp gömlu matreiðslubókina frá því fyrsta bekk með Jóni Sveinssyni, í Hótel og Matvælaskólanum hér í den.”

„Vatnsdeigssvanurinn er pínu retro en er alltaf jafn krúttlegur og skemmtilegur að bera fram.
Hérna gerði ég tvær útgáfur af honum, annars vegar með Chantilly-rjóma og bláberjasultu og
hinsvegar súkkulaðsvan með þeyttum lakkríssúkkulaðir-jóma og hindberjasultu.

Lakkríssúkkulaði-rjóminn er í raun þeytt ganachekrem en það má auðvitað skipta því út fyrir hvaða súkkulað i sem er. Athugið að best er að laga tvær uppskriftir fyrir sitthvorn svaninn eða deila þessari í tvennt”.

Vatnsdeigsbolludeig
fyrir 12-15 stk svani

  • 200 gr vatn
  • 200 gr mjólk
  • 200 gr smjör
  • 5 gr salt
  • 10 gr sykur
  • 200 gr hveiti, sigtað
  • 5 egg
  • (fyrir dökka svaninn, bættu við 1 msk að kakódufti)
  • Flórsykur til að sigta yfir
  • Kakóduft til að sigta yfir
  • Hindberjasulta
  • Bláberjasulta

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c (blástursofn).
  2. Setjið saman vatn, mjólk og smjör í pott og hitið þar til smjörið er bráðnað, passið að sjóði ekki.
  3. Bætið við salti og sykri. Að lokum kemur hveitið varlega út í og gott að nota hita þolna sleikju til að blanda því saman við. Sláið saman í pottinum þar til deigið er komið með fallegan gljáa og losnar auðveldlega frá.
  4. Setjið í hrærivélarskál og hrærið saman við eggin, eitt í einu, gott að bæta þeim við á 30-40 sekúndna fresti. Leyfið
    deiginu að koma saman í vélinni og setjið svo í sprautupoka.
  5. Til að gera búkinn á svaninum er gott að nota störnutúðu og halda pokanum svolítið á ská og sprauta svolítið eins og þykka perulaga bollu.
  6. Það má stelast á youtube til að sjá nokkur kennslumyndbönd ;)
  7. Fyrir hálsinn er best að nota litla venjulega hringlaga túðu, og sprauta S-laga mynstur, passa að gera það ekki of þykkt, því deigið blæs út. Sáldrið smá flórsykri yfir og bakið hálsinn í ca 10-12 mín og búkinn í 20-25 mín.
  8. Bæði hálsinn og búkurinn á að verða nokkuð stökkur.
  9. Leyfið að kólna. Skerið toppinn rétt ofan af búknum og skerið toppinn svo í tvennt, toppurinn verður að vængjunum. Fyllið með sultu og sprautið rjómanum yfir, setjið vængina og hálsinn á sinn stað.
  10. Sigtið smá flórsykur yfir hvíta svaninn og kakódufti yfir súkkulaðisvaninn. Til að toppa framsetninguna má bræða dökkt súkkulaði og hella yfir disk og setja svanina ofan á.
  11. Verði ykkur að góðu!

Chantilly rjómi

  • 500 ml rjómi
  • 1 stk vanillustöng, skorin eftir endilöngu og fræin skafin vel úr
  • 4 msk flórsykur

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í hrærivél og þeytið þar til stífir toppar myndast.
  2. Fyllið í sprautupoka og setjið störnutúðu framan á.

Lakkrísrjómi

  • 300 ml rjómi
  • 1 msk hunang
  • 10 gr sykur
  • 60 gr Omnom Lakkrís + Sea Salt, fínt saxað.

Aðferð:

  1. Hitaðu 100 ml af rjómanum rétt að suðumarki, bættu við hunanginu, sykrinum og hrærið vel saman þar til sykurinn er uppleystur. Hellið yfir súkkulaðið og blandið vel saman. Blandið restina af rjómanum við og setjið í kæli í ca 2 klst.
  2. Þegar á að fara fylla bollurnar, þeytið þá upp eins og rjóma og setjið í sprautupoka með stjörnutúðu.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Kjartan með handtökin á hreinu.
Kjartan með handtökin á hreinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Kjartan Gíslason hjá Omnom.
Kjartan Gíslason hjá Omnom. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert