Heillaðist af Spotted Pig í New York

Eyþór Mar Halldórsson, yfirmatreiðslumaður og eigandi Public House - Gastropub …
Eyþór Mar Halldórsson, yfirmatreiðslumaður og eigandi Public House - Gastropub við Laugaveg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyþór Mar Halldórsson, yfirmatreiðslumaður og eigandi Public House – Gastropub við Laugaveg, segir að hugmyndin á bak við staðinn hafi verið að opna smáréttastað með asískum áhrifum. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta líka pöbb.

„Við erum með tíu bjórtegundir á krana en einhverjar þrjátíu í heild. Þetta er svona stemningsstaður eins og heyrist á tónlistinni. Áherslan er á að allir réttirnir geti verið í bitastærð, tilvaldir til að deila,“ segir hann og er hamborgarinn helsta undantekningin. Frá upphafi var áherslan á að opna ekki dæmigerðan „fínan“ veitingastað heldur bar þar sem hægt væri að fá hágæðamat.

Allur maturinn er gerður frá grunni, sem dæmi eru hamborgarabrauðin heimatilbúin og sömuleiðis sósurnar.

Réttirnir eru ennfremur mjög fallegir á að líta. „Ég er búinn að vera að gera matseðla í mörg ár. Margir réttir sem fóru á seðilinn hér eru réttir sem pössuðu ekki inn annars staðar en passa algjörlega fyrir þennan stað. Það eru margir réttir sem maður setur kannski ekki á seðilinn þótt þeir séu frábærir því þeir eiga ekki við konseptið,“ segir hann en Public House hefur undirtitilinn „gastropub“ sem er ákveðin tegund af stað þar sem hægt er að fá gæðamat með bjórnum.

„Ég fór árið 2008 á gastropub í New York sem heitir Spotted Pig. Þetta er frægur staður með michelin-stjörnu. Ég varð heillaður af þessari hugmynd þá; að opna bar með háklassamat,“ segir Eyþór en staðurinn Public House var síðan opnaður í maí 2015. Síðan þróaðist hugmyndin áfram og fór alltaf meira í áttina að japönskum áhrifum, útskýrir hann.

Heillaður af hreinu bragði

Eins og áður segir eru réttirnir undir asískum áhrifum. Af hverju færðu innblástur frá þessari matargerð?

„Þetta er svo hreint bragð,“ segir Eyþór en þess má geta að hann er einnig með hina vinsælu staði Pablo Discobar og Burro.

„Ég er búinn að opna íslenskan veitingastað og líka ítalskan, japanskan og suðuramerískan. En einhvern veginn fer ég alltaf aftur í þetta bragð, súrt og sætt, í staðinn fyrir að vera að flækja þetta með sósum. Þegar maður horfir á japanska matargerð er líka mikið um staka rétti,“ segir hann og að þetta sé ólíkt franskri matargerð þar sem þrír réttir er vaninn.

Andarlæri í pönnuköku með engifersósu.
Andarlæri í pönnuköku með engifersósu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Reyktur lundi með bláberja yuzu og sykruðum heslihnetum.
Reyktur lundi með bláberja yuzu og sykruðum heslihnetum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert