Bára Jónsdóttir kom, sá og sigraði á síðasta bikarmóti í fitness en það sem þótti stórmerkilegt var að hún var einungis búin að æfa íþróttina í fimm mánuði sem er fáheyrður árangur.
„Ég stóð á tímamótum og ákvað að fara að æfa fitness,“ segir Bára Jónsdóttir, margfaldur fitnessmeistari sem gerið sér lítið fyrir á sínu fyrsta móti og tók heim þrjá titla. Bára var alls óþekkt enda einungis búin að æfa íþróttina í fimm mánuði. „Ég var samt í ágætisformi enda búin að æfa súlufimi í þrjú ár en þar byggir maður upp mjög góðan vöðvamassa,“ segir Bára af mikilli hógværð en árangurinn er engu að síður óheyrður. Hún fær sér súkkulaði áður en hún fer upp á svið.
Bára er þessa dagana að æfa fyrir Arnold-leikana sem fara fram í Bandaríkjunum eftir viku. Í aðdraganda móts þurfa keppendur að skera niður alla fitu og allt er gert til þess að draga fram vöðvana og gera þá sýnilegri. Bára segir þetta ferli þó ekki nándar nærri jafnóbærilegt eins og oft hefur verið af látið. „Daginn fyrir mót gerir maður til dæmis ekkert annað en að borða. Helst bara að liggja upp í rúmi og troða í sig allan daginn. Svo á mótsdeginum sjálfum líður manni ótrúlega vel og ég hefði eiginlega bara ekki trúað því. Svo fékk ég meira að segja súkkulaði áður en ég fór upp á svið en sykurinn þenur út æðarnar þannig að þær sjáist betur,“ segir hún hlæjandi og blæs á allar sögur um að fólk staulist upp á svið aðframkomið af hungri.
Algjör sælgætisgrís
Bára segir að veikleiki sinn sé ekki matur heldur sætindi. „Mér er eiginlega alveg sama um mat en sætindi eru minn veikleiki. Ég er almennt með einn nammidag í viku en síðasta mánuðinn tek ég hann út,“ segir Bára. Er það ekkert erfitt? „Nei, ef ég svindla þá er ég að eyðileggja fyrir sjálfri mér og markmið mín. Ég hef borðað súkkulaði fyrir lífstíð – ég get beðið í mánuð,“ bætir hún við brosandi.
Með besta þjálfarann
Bára segir að árangurinn sé ekki síst tilkominn af því að hún sé með frábæran þjálfara en þjálfari hennar, Konráð Valur Gíslason, fer út með ellefu keppendur á mótið. „Ástæðan fyrir því að ég ákvað að keppa var af því ég komst í þjálfun til Konna. Ég hefði líklegast hætt við allt fitnessið ef hann hefði ekki komið mér að. Mig langaði að keppa en vildi einungis gera það undir hans þjálfun.“
Þessa síðustu daga er mikill dagamunur á því hvernig Bára borðar. Annan hvern dag borðar hún mjög kolvetnasnautt en hinn daginn má hún aðeins meira. „Þá fæ ég mér pönnukökurnar mínar sem eru það langvinsælasta sem ég hef gert. Það er endalaust verið að biðja um uppskriftina inni á snappinu,“ segir Bára sem deilir hér uppskriftinni með lesendum.
Próteinpönnukökur Báru
Aðferð:
Ég leik mér svolítið með þetta eftir því hvort ég sé að skera niður fyrir mót eða ekki. Ég t.d. nota eggjahvitur í stað eggja í niðurskurði því ég borða egg og möndlur sem millimál yfir daginn og þá er óþarfi að hafa rauðuna með í pönnsunum líka.
Svo er ég fyrir mót bara með hálfan banana og 25 gr. af höfrum. Annars venjulega er ég með 40 gr. af höfrum og heilan banana.
Próteinið finnst mér gera aðalbragðið. Persónlulega finnst mér súkkulaði- og hnetusmjörsbragð eða karamellu-toffee bragð vera best. Þetta er 100% whey optimum nutrition-prótín frá Perform og það fylgir skeið með sem gott er að miða við. Svo er hægt að finna alls konar sykurlaus síróp sem eru mjög góð út á og setja svo bláber yfir eða þurrkuð trönuber og möndlur.
Pönnukökurnar eru steiktar í stutta stund á pönnu og þá eru þær tilbúnar.