„Fyrir alla þá sem elska pítsur en hata fyrirhöfn“

Indversku pítsurnar eru sérlega girnilegar.
Indversku pítsurnar eru sérlega girnilegar. mbl.is/aðsend

Í byrjun mánaðar fórum við af stað með leikinn Nettir réttir í samstarfi við Nettó þar sem við óskuðum eftir að fá einfaldar uppskriftir að geggjuðum réttum. Aðalatriðið var að töfra fram gómsæta uppskrift með ekki fleiri en fimm hráefnum. Miðað við fjölda uppskrifta sem bárust þá vafðist það ekki fyrir þátttakendum. Það féll í skaut Hafsteins Ólafssonar, sem krýndur var Kokkur ársins 2017, að velja þrjár bestu úr.

Það var Halldóra Eldjárn sem hreppti fyrsta sætið fyrir uppskrift að indverskri pítsu og hlýtur að launum 50.000 króna inneign í Nettó og miða fyrir tvo á Kokk ársins í Hörpu nk. laugardagskvöld. Annað sætið hreppti Sólrún Hraunfjörð og það þriðja Halldóra Jónsdóttir. Þær fengu báðar gjafabréf í Nettó að launum.

Að sögn Halldóru er vinningsuppskriftin tileinkuð öllum þeim sem elska pítsur en hata fyrirhöfn. „Ég á sjálf bágt með að fylgja hefðbundnum uppskriftum í þaula og enda yfirleitt á því að breyta, bæta við eða skipta út. Ég hef til dæmis aldrei haft þolinmæðina í kökubakstur því þar þarf að mæla svo mikið og maður kemst ekkert upp með að svindla neitt,“ segir Halldóra.

„Vegan pizzan er mín uppáhaldspizza. Fyrir einhverja eldhúsgaldra virkar naan-brauð sem hinn fullkomni pizzabotn, sem er prýðilegt fyrir fólk eins og mig sem á enn eftir að byggja steinofn úti í garði,“ útskýrir hún en meðfylgjandi er uppskriftin og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að prófa. 

Indversk pizza (sem jafnframt er vegan)

  • Naan-brauð
  • Mangó chutney
  • Tómat-passata
  • Sojahakk 
  • Grænmeti/Salat til að setja ofan á

Aðferð:  

  1. Pensla mangó chutney-i yfir naan-brauðið og svo smá slettu af tómat-passata.
  2. „Hakkið“ er steikt fyrst á pönnu með kryddum og salti (höfundur notar blöndu af hvítlauksdufti, garam masala, karríi og 5-spice powder) og dreift ofan á naanbrauðið.
  3. Þessu er skellt inn í mjög heitan ofn (220-225°C) í ca. 10 mínútur.
  4. Þegar pizzan kemur úr ofninum er grænmeti skellt á. Gott að blanda ferskum basil, rúkóla og pikkluðum rauðum chilli, en það er líka gott að setja spínat og fínt rifnar, pikklaðar gulrætur ofan á.
Halldóra Eldjárn sigraði uppskriftakeppnina.
Halldóra Eldjárn sigraði uppskriftakeppnina. mbl.is/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka