Margir halda að það sé brjálæðislega flókið að steikja kleinur og ástarpunga en svo er bara alls ekki. Valgerður Gréta Guðmundsdóttir sem heldur úti matarblogginu Eldhúsið hennar Völlu er hér með bæði uppskrift og ítarlega aðferð en hún segir sjálf að hún hafi fyrir nokkrum árum ráðist í það verkefni að finna uppskrift og aðferð sem hún var ánægð með.
„Mér þykir best að blanda saman sítrónu, vanillu og kardimommudropum og ég vil hafa þetta gúmmelaði helst bragðmikið. Smjör í kleinudeigið er nauðsyn og nokkur saltkorn gera útslagið.
Ég steiki bakkelsið upp úr palmín sem er 100% kókosolía en vel að sleppa tólginni. Ég bræði palmínið í Le Creuset þykkbotna potti og passa að hafa feitina um 180°c heita. Ég set sælgætishitamæli í pottinn sem ég festi á brúninni en ég myndi segja að það væri alveg nauðsynlegt ef þið eruð ekki með djúpsteikingapott sem er hægt að stilla á stöðugan hita,“ segir Valla og bætir við að það sé miklu auðveldara að steikja kleinur en margur heldur og lítið mál sé að skella umframbirgðum í frystinn.
Kleinurnar
Blandið saman þurrefnum í hrærivélaskál, setjið svo rest saman við og hrærið varlega. Takið svo deigið úr skálinni og klárið að hnoða þangað til það hættir að loða við hendur og borð.
Skiptið deiginu í þrennt og fletjið út einn hluta þar til það er um 1/2 cm á þykkt.
Þar sem ég á ekki kleinujárn nota ég pítsuskera til að skera út kleinurnar. Ég sker deigið í ca. 4-5 cm lengjur og svo aftur á ská til þess að gera tígullaga búta. Sker svo skurð í miðjuna á hverjum tígli og sný upp á.
Ég set svo 4-5 stk. í einu út í feitina. Ég veiði þær upp úr með fiskispaða og legg ofan á eldhúspappír sem ég set í ofnskúffu.
Þegar ég hef steikt allar kleinurnar tek ég pottinn af hellunni og hræri í ástarpungadeig en það er mjög auðvelt. Þessi uppskrift er ekkert mjög stór og mætti því auðveldlega tvöfalda hana.
Ástarpungar
Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Blandið saman þurrefnum og þar á eftir mjólk, dropum og rúsínum.
Mótið eins mikla kúlu og hægt er með tveimur teskeiðum og setjið ofan í heita feitina.
Það er vissara að steikja meira en minna svo þeir verði ekki hráir í miðjunni.