Steikt eggjabrauð vekur hlýjar æskuminningar hjá mörgum. Hvort sem það var amma, mamma eða pabbi sem steikti ilmandi eggjabrauð upp úr smjöri var útkoman alltaf ómótstæðileg. Það er eitthvað við svona gamaldags mat sem hlýjar sálartetrinu og bætir geð.
Í seinni tíð finnst mér ómissandi að setja súrar gúrkur á samlokuna en mamma setti alltaf rauðkál. Hvort tveggja er virkilega ljúft.
Eggjabrauðið hennar mömmu
4 sneiðar gott brauð
2 egg
1/3 tsk salt
salat svo sem iceberg eða spínat
1 tómatur
10 sneiðar súr gúrka
6 ostsneiðar, t.d. Havartí eða Búri
sinnep
1 tsk smjör
1/3 rauð paprika
Pískið eggið í skál með saltinu. Smellið brauðsneiðunum í skálina, einni í einu, og látið brauðið draga eggjablönduna í sig.
Steikið á pönnu upp úr smjöri sirka 2-4 mínútur á hvorri hlið á meðalhita eða þar til brauðið er tekið að gyllast. Setjið þá vel af osti á tvær af fjórum sneiðum. Slökkvið undir og látið ostinn bráðna á meðan áleggið er undirbúið.
Raðið káli, gúrkum, tómatsneiðum og papriku á aðra sneiðina, smyrjið hina með sinnepi og lokið herlegheitunum.