Mögnuð pítsa án mikillar fyrirhafnar

Við dóttirin sammældumst um pítsu með ananas og grilluðu grænmeti. …
Við dóttirin sammældumst um pítsu með ananas og grilluðu grænmeti. Fururhnetum og guðdómlegum osti. mbl.is/TM

Pítsur eru mikið lostæti og uppáhald margra. Víða eru vikuleg pítsakvöld hjá fjölskyldum hluti af helginni og velja þá fjölskyldumeðlimir sitt álegg og raða á pítsuna. Ég hef verið að prófa mig áfram með ýmsar tegundir botna. Um síðustu helgi ákvað ég að kaupa tilbúið deig og kaupa dýrara hráefni en venjulega og sjá hvort afraksturinn væri annar.

Ó, þú dýrðlegi pítsagjörningur sem fullkomnaðir líf mitt. Rándýri osturinn gerði líklega gæfumuninn en tilbúna deigið var einnig fáránlega gott. Latir mega líka lifa! 

Ég mæli sterklega með að leyfa sér við og við að versla í verslunum sem selja lífrænt og kaupa minna og betra hráefni.

Ítölsk heimapítsa

2 kúlur súrdeig (Frú Lauga)
1 kúla mozzarella (helst úr Buffalo-mjólk. Fæst stundum í Frú Laugu og Búrinu)
200 g rifinn ostur 
10 picollo-tómatar 
5 sneiðar eggaldin 
1/2 paprika, rauð eða gul 
10 ananasbitar 
1 msk. furuhnetur 
3 vænir sveppir 

Sósa:
1 hvítlauksrif (ég keypti ítalskan lífrænan, hann er mun bragðmeiri)
1 dós hakkaðir hágæða tómatar (ítölsku San Marzano-tómatar)
2 msk. tómatpúrra 
1 msk. ítalskt pítsukrydd 
1 msk. fersk basilíka, söxuð 
- Hrærið öllu saman.

Fletjið deigið út. Ég vil hafa mína nokkuð þunna.

Berið sósu á botninn.

Steikið eggaldinsneiðar og paprikustrimla við háan hita í steypujárni upp úr olíu svo það taki á sig gylltan lit. Það er einnig vikrilega gott að grilla grænmetið.

Raðið grænmetinu, ananas og sveppum yfir botninn. Hellið 100 g af rifnum osti yfir botninn. Takið helminginn af mozarellakúlunni og rífið yfir pítsuna með höndnunum. Gætið þess að kreista vatnið vel úr ostinum. 

Dreifið furuhnetunum og tómötum yfir. 

Bakið í 15 mínútur á 180 á blæstri og hækkið hitann í 200 síðustu 5 mínúturnar og kveikið á grilli. 

Dreifið ferskri basilíku yfir áður en pítsan er borin fram.

Ég keypti tvær kúlur og gerði aðra pítsuna með kryddaðri …
Ég keypti tvær kúlur og gerði aðra pítsuna með kryddaðri smápylsu, sveppum, furuhnetum, ost og sósu mbl.is/TM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert