Einn af kostum þess að vera með tilraunaeldhús á vinnustað sínum er sá að hægt er að gera ýmsar tilraunir á samstarfsfólki sínu undir yfirskyninu „Ekki borða ég þetta allt sjálf.“
Í vikunni ákvað ég að baka súkkulaði-brownies, eða brúnkur eins og það kallast víst á íslensku, með myntukremi því ég elska allt með súkkulaði og myntu. Þær voru minna flóknar en mig hafði grunað og sannkallaðar bombur.
Rjómaostakremið gaf þeim ferskleika sem vegur upp á móti súkkulaðinu og það er skemmst frá því að segja að þó nokkrar stunur og „high five“ voru til marks um það að útkoman var virkilega góð. Blaðamenn Morgunblaðsins gerðu kökunni góð skil og ég er ekki frá því að fréttirnar hafi runnið hraðar upp úr þeim eftir hressandi sykursjokk og sætleika.
Uppskriftin er samansoðin úr nokkrum en vissulega má nota hvaða brúnkuuppskrift sem er.
Brúnka með hvítu súkkulaði
225 g smjör, brætt
75 g ósætt kakó
300 g hrásykur
3 egg og 1 rauða hrærð saman
1 tsk. vanilludropar
½ tsk. salt
40 g hvítir súkkulaðidropar (má sleppa)
190 g hveiti, sigtað
2 msk. soðið vatn
Takið út smjör og egg og látið ná stofuhita.
Hitið ofninn upp í 170 gráður. Smyrjið 33 x 23 brownies-mót með smjöri og stetjið smjörpappír ofan í það. Smjörið hjálpar pappírnum að tolla. Gætið þess að pappírinn nái upp fyrir hliðarnar svo hægt sé að taka kökuna upp á pappírsbrúnunum.
Í stóra skál skal hræra saman bráðnuðu smjöri og kakó. Því næst fer sykurinn, eggin (sem búið er að slá saman), vanilla, vatn og salt í skálina. Hrærið vel. Bætið sigtuðu hveitinu varlega við og gætið þess að ofhræra ekki degið. Bætið hvítu súkkulaðidropunum við og hrærið varlega.
Smyrjið deiginu í mótið, deigið er nokkuð þykkt. Bakið í 25 mínútur. Stingið prjóni í til að komast að því hvort brúnkan er fullbökuð.
Kælið hana í 20 mínútur áður en myntukremið er sett á.
Myntukrem:
100 g smjör við stofuhita
280 g flórsykur
1 msk. rjómi
100 g rjómaostur
½ tsk. piparmyntudropar (smakkið til)
Hærið smjörið í hrærivél eða með handþeytara í 1-2 mín. uns það verður ljóst og loftkennt (fluffý). Bætið flórsykrinum rólega við. Svo kemur rjóminn og rjómaosturinn. Síðast eru það myntudroparnir. Smakkið til. Flipphausar geta sett smá grænan matarlit í kremið.
Smyrjið myntukreminu á kökuna og skellið henni í frysti á meðan súkkulaðibráðin er útbúin.
Súkkulaðibráð
100 g smjör
220 g dökkt súkkulaði
Bræðið við vægan hita. Látið blönduna ná stofuhita áður en hún er sett ofan á myntukremið.