Leikur sér að hverri sneið

Guðrún Pálína og Bjarni Gunnar.
Guðrún Pálína og Bjarni Gunnar. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Guðrún Pálína Sveinsdóttir Kröyer, yfirkokkur á Smurstöðinni í Hörpu, segir vera vakningu fyrir smurbrauði á nýjan máta í kjölfar vinsælda nýnorrænnar matargerðar. Smurstöðin er núna með tvö vegan-smurbrauð á matseðli.

Þekktasta smurbrauðið er ef til vill með rauðsprettu og rækjum eða lifrarkæfu en það er vel hægt að leika sér með smurbrauð og gera eitthvað nýtt, segir Guðrún Pálína Sveinsdóttir Kröyer, yfirkokkur á Smurstöðinni í Hörpu. Á matseðlinum eru tvö vegan-smurbrauð. Nýtt á seðli er grænmetis- og paprikusteik með rauðbeðuteningum en líka er boðið uppá kryddkartöflur með hnetukurli. Hún segir að það sé mikilvægt að fylgjast með tíðarandanum. „Grænmetissteikin er ekki alltaf sú sama en við leikum okkur með uppskriftirnar. Þetta hefur reynst mjög vel og er mjög spennandi,“ segir Guðrún.

Hún segir að það sé ekkert endilega víst að það verði sami toppurinn næst því kannski verði notaðar einhverjar aðrar spírur eða kryddjurtir. Eitt er víst að smurbrauðið er alltaf fallegt en hluti ánægjunnar af því að borða smurbrauð er að fá fallega sneið á diskinn sinn.

Hvað er það sem höfðar til fólks varðandi smurbrauð?

„Þú sérð allt sem er á því, það er ekkert falið inní. Þetta er líka hollur matur. Vegan og grænmetismatur er í tíðarandanum í dag og þannig að maður reynir að fylgja með í því. Smurbrauð er auðvitað sígilt í Danmörku en þar hefur verið mikil vakning hvað smurbrauðið varðar síðustu ár. Það hefur verið algjört trend fyrir smurbrauði gerðu á nýjan máta. Það er rosalega gaman að leika sér með hverja sneið og fólk tekur því vel,“ segir Guðrún sem er ánægð með þessa vakningu og minnist í því samhengi á smurbrauðsstofu Claus Meyer í New York en Meyer er frumkvöðull í nýnorrænni matargerð og gerði garðinn m.a. frægan hjá Noma í Kaupmannahöfn.

Guðrún þekkir vel danskar matarhefðir en hún bjó í Danmörku í 17 ár. Hún flutti heim árið 2006 og er búin að vinna í ár á Smurstöðinni en áður var hún á Jómfrúnni.

„Íslendingar eru miklu meira vakandi fyrir Norðurlöndunum og Danmörku en var fyrir 20 árum. Það hefur mikið breyst. Þetta er mjög góð breyting.“

Bjarni Gunnar Kristinsson, yfirmatreiðslumaður Hörpu, segir að lögð hafi verið áhersla á að bæta þjónustu í Hörpu með því að bjóða brauð fyrir alla, hvort sem það sé vegan eða án glúteins eða annarra ofnæmisvalda. Hann er ánægður með vegan-viðbótina og segir hana ekki bara vera fyrir veganfólk. „Þetta er líka fyrir okkur hin sem viljum bara borða hollt og þá mat sem er unninn frá grunni og lagaður með ást og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert