Múffur með kókos og banönum

Ásdís Ásgeirsdóttir

Þessar múffur ættu að slá í gegn á einhverjum heimilum enda framúrskarandi blanda af góðgæti þar á ferð. Svo má færa sannfærandi rök fyrir því að þær séu bráðhollar enda stútfullar af ávöxtum alls kyns fíneríi. 

Uppskriftin kemur úr smiðju meistaranna í Emily and the cool kids.

Múffur með kókos og banönum 

Fyrir 6 múffur

  • 120 g eplamauk án viðbætts sykurs
  • 80 ml fljótandi kókosolía
  • 120 ml jurtamjólk (möndlu, kókos, soja, hafra o.s.frv.)
  • 240 g hveiti
  • 100 g kókosflögur eða kókosmjöl, eftir smekk
  • 160 g púðursykur
  • 2 þroskaðir bananar
  • 1 msk. lyftiduft

Aðferð:

  1. Fyrir þessa uppskrift er notast við múffuform úr sílikoni í stærri kantinum. Það má nota minni form, en athugið að bökunartíminn styttist við það og þarf að fylgjast vel með.
  2. Forhitið ofninn í 170 °C.
  3. Léttristið kókosflögurnar í ofninum þar til þær eru gylltar. Fylgjast þarf vel með svo að þær brenni ekki. Kælið.
  4. Blandið eplamauki, olíu og mjólk saman í skál.
  5. Blandið hveiti, sykri, lyftidufti, kókosflögum (eða mjöli) og grófhökkuðum banönum í aðra stærri skál.
  6. Hellið vökvanum yfir þurrefnablönduna og hrærið þar til allt er orðið vel sameinað.
  7. Dreifið deiginu í múffuformið og stráið því næst kókosmjöli yfir.
  8. Bakið við 170 °C í 25-30 mínútur. Kökurnar eru tilbúnar ef hnífsoddur sem stungið er í þær miðjar kemur út þurr.
  9. Njótið með góðum heitum drykk eða mjólkurglasi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka