Því er sannarlega ekki komið að auðum kofunum þegar hið sjóðheita umræðuefni matarsóun ber á góma. „Ég er ansi dugleg við að nýta það hráefni sem ég vinn með og er útsjónarsöm með hvernig best sé að nýta afganga. Þannig getum við slegið tvær flugur í einu höggi, lagt okkar af mörkum til að sporna við matarsóun og fengið meira fyrir peninginn.“
Ásdís segist öflug við að kaupa inn vörur sem sérmerktar eru verkefninu Minni sóun og fáist í verslunum Nettó, þar sem ýmiskonar vörur sem farnar eru að nálgast síðasta söludag eða eru gengisfelldar fyrir útlitsgallaðar umbúðir, séu á sannkölluðum spottprís – þó nákvæmlega ekkert sé að þeim. „Þetta eru allskonar vörur, allt frá þurrvöru upp í stórsteikur sem eru á 20-70% afslætti, svo það borgar sig að skoða hvað er í boði. Ekki bara fyrir umhverfið heldur líka veskið,“ útskýrir hún létt í bragði.
Ásdís dregur hér fram tvær uppskriftir þar sem hún býður lesendum upp á að nýta það sem til er og töfra fram dásemdarmáltíðir fyrir lítinn pening. „Súpan kostar um 500 krónur þegar ég nýti mér Minni sóunar-vörurnar eins og ég get og þessar möffins kosta um 800 krónur en ég fæ um 12 stykki út úr þessari uppskrift. Ætli möndlusmjörið hafi ekki kostað mest í þessum uppskriftum og þó er það ekki dýrt – og endist auk þess mjög lengi,“ segir hún að lokum.
Girnilegar bláberja- og bananamúffur.
mbl.is/Hilmar Bragi
Bláberja- & bananamúffur
- 2 þroskaðir bananar
- ½ b. möndlusmjör (má nota hnetusmjör, það er talsvert ódýrara)
- ¼ b. möndlumjólk
- ½ b. hunang
- 2 tsk. vanilluduft/dropar
- 2 ¼ b. hafraflögur
- 1 tsk. vínsteinslyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ¼ tsk. sjávarsalt
- ½ b. fersk/frosin bláber
- 2 egg
Aðferð:
- Hitið ofn í 175°C og smyrjið eða spreyið 12 múffu form.
- Blandið fyrst saman blautefnum nema bláberjum og setjið í blandara eða matvinnsluvél og bætið svo þurrefnum út í og blandið vel saman þar til mjúkt.
- Hellið í skál og hrærið bláberjunum út í deigið rólega með skeið. Hellið deiginu í form og fyllið hvert form um ¾. Bakið í ofni í 20 mín. þar til hæfilega gyllt á lit.
- Leyfið þessu að kólna í um 10-15 mín. áður en þið gæðið ykkur á þessum gómsætu múffum!
- Það er til dæmis mjög sniðugt að eiga þessar heilsumúffur í frysti til að grípa í þegar tíminn er naumur og hægt að nota þær í morgunmat eða millimál. Einnig er hægt að gera þær glúteinlausar og nota þá glúteinlausa hafra í staðinn.
Papriku- og linsubaunasúpa sem engan svíkur.
mbl.is/Hilmar Bragi
Papriku- & linsubaunasúpa
- 4 stk. rauðar paprikur
- 3 stk. gulrætur
- 2 hvítlauksrif
- 1 laukur
- 2 ½ b. vatn
- ½ msk. kókosolía
- 2 dósir hakkaðir tómatar
- 1 bolli rauðar linsubaunir
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 1 dós kókosmjólk
- 1-2 tsk. Tandoori-krydd
- ½ tsk. Herbamere krydd
- ¼-½ tsk. sjávarsalt
- Smá pipar
Aðferð:
- Hitið ofn í 180°C. Saxið paprikur og setjið í eldfast mót, kryddið þær aðeins og setjið smá olíu ef vill. Ofnristið í ofni í ca. 20-30 mín. eða þar til ristaðar.
- Hitið olíu í potti og steikið saxaðar gulrætur, lauk og hvítlauk, kryddið og hrærið reglulega og leyfið þessu að malla saman í nokkrar mínútur.
- Bætið vatni, grænmetistening, kókosmjólk, linsubaunum og hökkuðum tómötum saman við og látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið malla í 20-25 mín.
- Hægt að mauka súpuna í blandara eða matvinnsluvél til að gera hana meira kremkennda. Bætið við hreinum fetaosti eða rifnum veganosti og smá sítrónusafa áður en þið berið súpuna fram.
- Afar ljúffeng súpa sem gefur okkur góða næringu og fyllingu í amstri dagsins.