Borðbúnaður frá dönsku postulínsverksmiðjunni Royal Copenhagen hefur prýtt borðstofur landsmanna í áraraðir. Stellin frá þeim eru erfðagripir sem ganga á milli kynslóða og eru vinsæl hjá ungum sem öldnum, enda hefur fyrirtækið hannað og framleitt gæða postulín síðan 1775. Royal Copenhagen eru frægir fyrir hvít postulínsstell með bláum blómamynstrum og margir kannast eflaust við Blue Fluted matarstellið sem kúrt hefur á óskalistum ófárra brúðhjóna. Nú hefur Royal Copenhagen bætt um betur og kynnti á dögunum nýja línu af borðbúnaði sem ber nafnið Blomst.
Það er hollenski listamaðurinn Wouter Dolk sem fékk heiðurinn af því að hanna nýja útgáfu af blómamynstri fyrir stellið, en samkvæmt Royal Copenhagen tók um fimm ár að vinna nýju línuna. Nýja mynstrið er óður til fortíðar en það er unnið upp úr gömlu blómamynstri Royal Copenhagen frá 1779 sem bar einfaldlega heitið ,,Pattern no. 2, Blue Flower.” Þetta hefðbundna og gamaldags blómamynstur er handmálað á einfalt og nútímalegt postulín svo úr verður falleg blanda af gömlu og nýju, og er stellið hið mesta stofustáss.
Þá er bara að krossa fingur og vona að stellið góða rati í búðir hér á landi. En borðbúnaðinn má grandskoða á heimasíðu Royal Copenhagen.